Hernámsárin ljóslifandi og kómísk í Freyvangi

LEIKHÚSStríð eru ekki bara vígvellir. Þegar það er stríð, hefur það áhrif langt út fyrir orrusturnar sjálfar, á líf ólíklegasta fólks. Heimsstyrjöldin síðari hafði gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag með tilkomu hersetu Breta og svo síðar Bandaríkjamanna. Hernámsárin breyttu daglegu lífi venjulegra Íslendinga, skyndilega voru ný tækifæri að spretta upp eins og gorkúlur. Leikverkið 'Land míns föður', sem Freyvangsleikhúsið setur upp í vor, fjallar um þessi ár í Reykjavík. Undirrituð setti í sig rúllurnar, mundaði hárspreyið og mætti á frumsýningu á föstudaginn var.
Sagan hverfist um ástir, örlög og lífsviðurværi venjulegs fólks á þessum tíma. Þó að undirtónninn sé alvarlegur, stríð og hernám eru ekki kannski beint fyndin fyrirbæri, þá er verkið kómískt og oft sem skellt var upp úr í salnum. Í hjarta verksins er fjölskylda, sem er dásamlega íslensk. Lífsreynd og harðdugleg hjón og dætur tvær, þar sem væntumþykjan er mikil og áþreifanleg en tilfinningatengslin flókin. Önnur dóttirin, Bára, er nýlega orðin fullorðin en Anna er aðeins yngri. Fjölskyldufaðirinn Leifur er lögregluþjónn í upphafi sýningar, en þegar herinn er mættur fer starf lögreglunnar að breytast töluvert. Leifur er stutt frá eftirlaunaaldri og á erfitt með að finna sig í æfingum með riffla og afskiptum af árekstrum unga fólksins. Aukið skemmtanahald og vesen fylgdi nefnilega hermönnunum.
Húsfreyjan Þuríður er klók og fer að bjóða upp á þvottaþjónustu inni á heimilinu fyrir blessaða hermennina. Skyrtur, bolir og langbrækur hanga upp um alla stofu og aumingja Leifur getur hvergi sest til þess að lesa blaðið. Dæturnar hjálpa til við þvottinn, auk kærasta Báru sem heitir Ársæll, kallaður Sæli. Hveitibrauðsdagar unga parsins falla svolítið í skuggann af ástandinu, þar sem þau geta ekki útvegað sér stað að búa og þurfa að láta sér lynda að búa upp á lofti á heimilinu sem mætti jafnvel frekar kalla þvottahús eins og staðan er.
Það fer að draga til tíðinda þegar Sæli skellir sér á sjóinn til þess að freista þess að safna pening. Þá skapast rými á sjóndeildarhring Báru fyrir hinn kurteisa, glæsilega og heillandi Tony. Hann er hermaður og viðskiptavinur þvottahússins, og Bára fellur alveg kolflöt fyrir honum. 'Ástandið' er frægt í sögu hernáms á Íslandi, en það var skiljanlega erfitt fyrir íslenska karlmenn að keppa við þessa blíðu og heillandi útlendinga, sem áttu tannkrem og svitalyktareyði. Þó að það sé tekið skýrt fram að Sæli hafi verið toppmaður og þar að auki glímumeistari, var það frekar úrelt gildismat í samanburði. Það er eftirminnilegt atriði síðar í verkinu, þegar ungir og vaskir Íslendingar mæta sem fánaberar á Þingvöll í spandex glímuheilgöllunum. Okkar hraustustu menn, og gaman að velta fyrir sér spurningum um hreysti í glímu og stríði. Hver glíma er lítið stríð í sjálfri sér. Allavega í landi sem þekkir ekki 'alvöru' stríð.
Leikhópurinn stillir sér upp eftir frumsýningu ásamt Ólafi Jens Sigurðssyni leikstjóra. Mynd: Freyvangsleikhúsið
Verkið er eftir Kjartan Ragnarsson og var fyrst sýnt af Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó við Tjörnina árið 1985. Það er mikið af tónlist í verkinu sem er frumsamin af Atla Heimi Sveinssyni. Hljómsveitin í Freyvangi er þétt og góð, en stundum heyrðist ekki nægilega vel í söngnum - en það verður eflaust stillt betur á næstu sýningum. Leikur og söngur er alveg prýðilegur, og búningar leikaranna voru mjög flottir. Mér fannst stórkostlegt að sjá hverja senuna á fætur annarri, þar sem konurnar voru komnar í nýjan kjól og allt mjög sannfærandi miðað við tíðaranda. Nú var undirrituð ekki uppi á hernámsárunum, en sviðsetningin hljómaði vel við mínar hugmyndir um þennan tíma. Stórt hrós á listræna teymið aftur.
Leikararnir stóðu sig öll vel í leik og söng. Mig langar yfirleitt ekki að draga fram einstaka frammistöðu, ég er svo mikill diplómati í mér, en ég ætla að gera það núna. Mér fannst Ingólfur Þórsson alveg frábær sem fjölskyldufaðirinn Leifur. Hann var svo innilegur í tilraunum sínum til þess að vernda fjölskyldu sína og á sama tíma, að leyfa sér að dreyma um það að fá dagstofuna sína endurheimta og lausa við hermannabrækur. Yngri dóttirin Anna er skemmtilegur karakter, sem er svolítið ósýnileg í fyrri hluta sýningarinnar en á svo eftirminnilegar senur eftir hlé þar sem hún flækist óþarflega mikið í strákastand með hermönnum. Sara Líf Sigurjónsdóttir var frábær í hlutverki Önnu og átti mjög góðan leik. Kómísk og sjarmerandi. Mig langar líka að minnast á Jón Friðrik Benónýsson sem var bráðfyndinn í hlutverki afa hans Sæla, en Jón Friðrik á 55 ára leikafmæli í ár og ekki að spyrja að reynslunni. Jóhanna Sigmarsdóttir þarf svo að komast á blað fyrir stórkostlegan söng, en hún leikur Siggu.
Það er ekki hægt að segja að Freyvangsleikhúsið hafi ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Verkið er mannmargt, en 29 leikarar stíga á svið, auk hljómsveitar sem telur fimm manns. Sýningin er svolítið löng, en það er gott hlé á milli fyrir áhorfendur að teygja úr sér, og svo hefur sviðsetningin eflaust verið svolítið flókin, þar sem sagan gerist á nokkrum ólíkum stöðum. Listrænt teymi Freyvangs leysti það verkefni mjög vel, en á sviðinu eru nokkrir pallar og dyr og gluggar til hliðanna sem skipta sífellt um hlutverk þannig að við förum t.d. úr litlu heimili í Reykjavík og lendum skyndilega á Þingvöllum án þess að tilfærslur eigi sér stað. Ljós og stemning sjá til þess að það er alveg áreynslulaust. Í heildina flott, metnaðarfull og skemmtileg sýning hjá Freyvangsleikhúsinu.
Verkið er áhugavert, svolítið flókið samt og margar sögur í gangi. Ég var stundum svolítið týnd, það fléttuðust óþarflega margir þræðir saman að mínu mati. Aðalsagan, um unga parið Báru og Sæla, var þó skýr og vel haldið utan um hana. Eitt af því sem mér fannst best við verkið, er hvað það er í raun fræðandi líka. Mikið er lagt upp úr því að koma því að, hver staðan á stríðinu og lýðveldisstofnun Íslands er hverju sinni, á meðan við fylgjum aðalsögupersónum eftir. Ég hef aldrei verið mikil áhugakona um stríð og átti helst til að missa áhugann í sögutímum þegar sagt var frá stríðum. En áhrif stríða á mannlífið og samfélögin sem verða heltekin, það er annað mál. Það hefur mér alltaf þótt heillandi viðfangsefni. Sögurnar sem verða til í hverju húsi. Eða þvottahúsi.
Það er mjög áhugavert að reyna að setja sig í spor fólks sem var að draga fram lífið á Íslandi þegar herinn lenti og breytti svo mörgu. Að vakna allt í einu upp við það, að hræðileg átök úti í heimi og harmleikurinn sem fylgir, sé að banka upp á í friðsælli tilverunni, hlýtur að hafa verið undarlegt. Tilveru sem hafði samt ekki verið auðveld, og fólk fékk ekkert gefins. Í leikritinu 'Land míns föður' er vissulega reynt að finna kómíkina í hernáminu og sagt frá á léttum nótum, en sársaukinn og óöryggið er þó alltumlykjandi og líf fólk er að kútveltast í þessari gríðarstóru þvottavél. Hvort sem afraksturinn er hengdur upp í stofunni hjá Leifi, eða settur á svið í íslenskri sveit mörgum árum síðar – er það bókað mál að áhrif heimsstyrjaldanna voru gríðarleg, og eru að verki enn í dag. Ókyrrð er í friði heimsveldanna þegar þetta er skrifað, og við vitum ekki hvað næstu mánuðir og ár bera í skauti sér. Þangað til væri ekkert vitlaust að skella sér í leikhús!


Brúsaburður

Forboðnir ávextir, æsingur og æðibunugangur á Melum

Síðbuxur

Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu
