Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Strandgata 19

Innan bæjarmarka Akureyrar standa, svo höfundur viti til, 12 hús frá árabilinu 1880-1890. Svo vill til, að helmingur þeirra, sex að tölu er byggður 1886! Mætti þá ætla, að nokkur uppgangur hafi verið í bænum það ár og mikið byggt miðað við önnur ár? Það er reyndar ekki svo einfalt. Einhver þeirra húsa sem byggð voru á þessu árabili hafa brunnið eða verið rifin og einnig er það svo, að byggingarár húsa sem byggð voru á þessum tíma þarf í einhverjum tilfellum að taka með fyrirvara. Á milli Strandgötu og Glerárgötu vill svo til, að standa þrjú hús af téðum „1886 árgangi“ Akureyrarhúsa í röð. Eitt þeirra er Strandgata 19, sem margir kannast við undir nafninu Brattahlíð. Einhverjum kynni að þykja það sérkennilegt nafn á húsi á marflatri eyri en ástæða þeirrar nafngiftar verður rakin síðar í greininni...

Strandgötu 19 reisti norskur skipstjóri að nafni Jon Jacobsen, sem bygginganefnd Akureyrar kallaði reyndar upp á íslensku Jón Jakobsson, þegar hún bókaði lóðamælingu og byggingaleyfi fyrir hann þann 10. maí 1886. Húsið Jons skyldi 12 álnir að lengd og 10 álnir á breidd og lóðamörk 10 álnir vestan við hús Þórðar Brynjólfssonar og „[...] í rjettri línu með því og öðrum húsum í strandgötunni“ (Bygg.nefnd Ak. nr. 72, 1886). Þarna er talað um strandgötuna með litlum staf en nafnið Strandgata kom ekki til fyrr en um aldamót 1900. Í Manntali árið 1890 eru öll hús á Oddeyri kennd við eigendur eða húsbændur og þetta hús því einfaldlega kallað Hús Jóns Jacobsen, Oddeyri. Þá búa í húsinu, auk Jóns, kona hans, Katrín Guðmundsdóttir Jacobsen og þrjár ungar dætur þeirra, Anna, Emma og Dagmar. Ári síðar eignuðustu þau soninn Jakob Lúther.

Strandgata 19 er tvílyft timburhús á lágum steinkjallara og með lágu, aflíðandi risi. Að norðan, þ.e. bakhlið, er tvílyft viðbygging eða bakálma og er hún með lágu einhalla þaki mót austri. Austanmegin á bakhlið er einlyft bygging, einnig með einhalla þaki en þak hennar hallar til norðurs, líkt og á framhúsinu. Framhlið hússins er klædd sléttri klæðningu, nánar tiltekið lökkuðum spónaplötum en á stöfnum er listasúð á neðri hluta en lárétt panelklæðning á efri hluta. Undir gluggum efri hæðar er listi eða skrautband meðfram neðri gluggalínu. Á neðri hæð eru síðir „verslunargluggar“ en einfaldir, lóðréttir póstar í flestum öðrum gluggum. Undir rjáfrum eru tígullaga smágluggar. Grunnflötur framhúss er 8,21x6,38m, vestri útbygging 4,43x3,21m og sú eystri 3,78x3,21m (skv. uppmælingarteikningum Loga Más Einarssonar).

Jón Jacobsen mun hafa verið fæddur árið 1854 í Noregi. Á Íslandi virðist hann fyrst hafa alið manninn í Hrísey en þaðan mun hann hafa komið til Akureyrar árið 1883. Mögulega hefur hann kynnst konu sinni, Katrínu Sesselju Guðmundsdóttur (1862-1943) á Hríseyjarárunum, en hún var árið 1880 vinnukona á Stóru – Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Katrín mun hafa verið úr Húnavatnssýslu, sögð fædd í Bergsstaðasókn, en skráð sem niðursetningur á Tyrfingsstöðum í Skagafirði árið 1870. Þau flytja til Akureyrar árið 1883 og þremur árum síðar byggja þau þetta hús á Oddeyri. Höfðu þau þá eignast tvær dætur, Önnu í febrúar 1884 og Emmu í september 1885. Þau hafa væntanlega verið nýflutt í nýja húsið þegar sú þriðja, Dagmar, fæddist í ársbyrjun 1887. Jón Jacobsen mun hafa flust til Noregs árið 1898 skv. islendingabok.is. Hefur hann þá væntanlega verið alfarinn, því ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hann eftir það dánardagur hans ekki skráður á téðri Íslendingabók. Kannski hefur Jón aðeins ætlað sér á vertíð til Íslands en ílengst og dvölin orðið hátt í tveir áratugir. Hvort Katrín fylgdi manni sínum til Noregs fylgir ekki sögunni en alltént er hún búsett á Akureyri árið 1901, húskona í Strandgötu 19a. Þar er hún skráð gift en enginn eiginmaður búsettur þar. Þannig mætti ætla, að þau hafi aldrei slitið samvistum þó hann flytti af landinu og hún yrði eftir. Árið 1901 búa þau Jakob Lúther og Dagmar hjá móður sinni, sú síðarnefnda titluð „veik“ í manntali. Emma var þá orðin vinnukona á Möðruvöllum í Hörgárdal, en elsta dóttirin, Anna Salbjörg hafði látist aðeins 12 ára gömul, árið 1896. Og þann 4. mars 1902, réttum tveimur mánuðum eftir fimmtánda afmælisdag sinn, lést Dagmar Jacobsen, mögulega af umræddum veikindum. Af börnum þeirra Jóns og Katrínar Jacobsen komust þannig aðeins tvö til fullorðinsára. Jakob Lúther fluttist til Noregs árið 1906 og á Íslendingabók segir að hann hafi siglt um öll heimsins höf. Hann fluttist til Bandaríkjanna 1919 en ekki liggja fyrir upplýsingar um dánardægur hans. Emma, sem lést árið 1950, mun hafa flust austur til Norðfjarðar, er skráð þar sem húsfreyja árið 1930.

(Sem fyrr segir er Katrín Guðmundsdóttir og tvö börn hennar skráð til heimilis að Strandgötu 19a árið 1901. Það er ekki víst að um sé að ræða þetta hús, þar sem númeraröðin við götuna var með öðrum hætti og jafnvel nokkuð óskipulögð. Sem dæmi um þetta má nefna, að hús Snorra Jónssonar er sagt nr. 23 árið 1901 en ári síðar er það nr. 19. Þá er númeraröðin orðin samræmd og þá er fyrrum hús Jóns Jacobsen orðið Strandgata 9).

Árið 1902 eignast húsið Lúðvík Sigurjónsson. Hann var fæddur og uppalinn á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu. Bróðir hans var Jóhann skáld, sem kannski er þekktastur fyrir leikrit sín um Fjalla Eyvind og Höllu sem og Galdra- Loft. Lúðvík gerði nokkrar breytingar á húsinu, sem í upphafi var einlyft með háu risi. Á Þorláksmessu 1904 var Lúðvík heimilað að byggja 5 álna kvist á suðurhlið hússins og setja dyr á vesturstafn og byggja upp að þeim tröppur. Kvistinn byggði hann hins vegar ekki, því í febrúar 1905 sækir hann um og fær leyfi til að byggja „eina lofthæð ofan á hús sitt“ og gera má ráð fyrir, að efri hæðin hafi risið það ár. Fékk þá húsið það lag sem það nú hefur. (Þess má reyndar geta, að skráð byggingarár hússins virðist miðast við þessar breytingar). Svipmót hússins er í raun ekki ósvipað húsum sem standa við Hafnarstræti 31-41 en þau risu einmitt á árabilinu 1903-06. Hvort að sú hönnun hafi verið höfð til hliðsjónar við stækkum Strandgötu 19 (nr. 9 árið 1905) er alls óvíst og þarf raunar ekki að vera, en gaman að skoða þetta í samhengi. Síðla árs 1906 fékk Lúðvík að reisa viðbyggingu norðan við húsið, 5 álnir að breidd og 3,5-4 álnir að hæð (lægri að framan, m.ö.o með hallandi þaki). Árið 1906 vildi einnig svo til að faðir Lúðvíks, Sigurjón Jóhannesson bóndi á Laxamýri, þá orðinn 73 ára, ákvað að bregða búi og flytja til Akureyrar. Reisti hann sér hús í bakgarði sonar síns og það sem kannski var sérstakt við það, var að bakhúsið var mikið stærra og íburðarmeira en framhúsið! Um var að ræða eitt af stærri einbýlishúsum Oddeyrar, timburhús í norskum sveitserstíl, sem þá var það allra veglegasta í húsabyggingum. Nefndi Sigurjón húsið að sjálfsögðu Laxamýri. Árið 1911 eignast Egill, bróðir Lúðvíks húsið, en sá síðarnefndi býr þar áfram. Þremur árum síðar er skráður til heimilis í húsinu Brynjólfur Stefánsson skósmiður. Og árið 1915 er Brynjólfur orðinn eigandi hússins.

Í árslok 1916 var Strandgata 19 virt til brunabóta og þá sagt tvílyft íbúðar- og verlsunarhús með lágu risi og stórum skúr við bakhlið. Á neðri hæð voru tvær sölubúðir, skósmíðaverkstæði og vörugeymsla. Á efri hæð voru alls fjórar stofur, eldhús og forstofa. Kjallari var óinnréttaður. Húsið var timburklætt og pappi á þaki. Á húsinu var einn skorsteinn og 20 gluggar en mál voru sögð 8,2x6,3m og hæð 6,9m. Gerð var athugasemd um það, að skorsteinsveggir væru of þunnir í lofti og þekja ójárnvarin (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr.165).

Brynjólfur mun hafa stundað iðn sína hér og um 1920 hefur hann almennan verslunarrekstur í húsinu. Mögulega hefur hann tekið við rekstri af Lárusi Thorarensen, sem virðist hafa verslað hér á 2. áratug 20. aldar, auglýsir m.a. „dýrtíðarkol“ árið 1918. (Eða réttara sagt, Bjargráðanefnd úthlutaði kolunum og þau mátti nálgast hjá Lárusi). Verslun sína kallaði Brynjólfur, Bröttuhlíð og birtist það heiti fyrst á prenti vorið 1920. Í fyrstu virðist hann hafa verslað með skófatnað, leðurvörur og annað álíka en árið 1922 býður hann til sölu hinar ýmsu vörur, auk skófatnaðar m.a. sápur, hnífa, borðbúnað, leirtau, kaffi, sykur og sveskjur og auglýsir Bröttuhlíð sem heildverslun. Árið 1927 hækkar Brynjólfur vestari hluta bakálmu hússins. Fékk hann framkvæmdaleyfi gegn því, að hann byggði eldvarnarvegg (steyptan, gluggalausan vegg) að norðan og járnklæddi vesturstafn. Teikningarnar að þeim breytingum gerði Gunnar Guðlaugsson trésmiður í Lundargötu 10. Hann var einnig mikill frumkvöðull í skátastarfi hér í bæ.

Við þessar byggingaframkvæmdir Brynjólfs mun húsið hafa fengið að mestu það lag sem það hefur nú. Ef við förum nú leifturhratt yfir sögu þessarar aldar sem liðin er frá upphafsárum verslunar Brynjólfs Stefánssonar er skemmst frá því segja, að alla tíð síðan hefur verið einhvers konar verslun eða þjónusta á neðri hæð hússins en íbúð á þeirri efri. Brattahlíðarnafnið mun aðeins hafa verið á versluninni um nokkurra ára skeið á 3. áratug sl. aldar en nafnið festist á húsið og í hugum margra kallast Strandgata 19 ætíð Brattahlíð enn í dag. Árið 1927 tilkynnir Brynjólfur, að hann hafi opnað nýja verslun, Verzlunina Oddeyri þar sem Brattahlíð var áður. Um áratug síðar opnar Pöntunarfélag Verkamanna, verslun þarna en virðist staldra stutt við. Brynjólfur Stefánsson átti hér heima til dánardægurs, síðla árið 1947. Á meðal verslana sem starfræktar hafa verið í Strandgötu 19, miðað við auglýsingar í blöðum má nefna Verslunina Skeifuna sem þarna er auglýst 1956 og Óskabúðina sem m.a. er auglýst þarna árið 1964 og mun hún hafa verið við lýði fram undir 1977. Árið 1978 er gullsmíðastofan Skart þarna til húsa og greinarhöfundur man eftir myndbandaleigu í húsinu um 1990. Síðasta áratug eða svo hafa verið starfræktar hárgreiðslustofur á neðri hæðinni og þegar þetta er ritað hárgreiðslustofan Hárið þar til húsa. Í Húsakönnun 1990 er Strandgata 19 sögð hafa varðveislugildi sem hluti af heild og árið 2020 hlýtur húsið hátt varðveislugildi og skorar hátt á öllum mælikvörðum þess, að því undanskildu, að skúrbyggingar á bakhlið teljast spilla heildarmynd (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021: 47). Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað og götumynd Strandgötu flokkast einnig sem varðveisluverð heild. Strandgata 19 er svo sannarlega til mikillar prýði í einni tilkomumestu götumynd bæjarins.

Myndirnar eru teknar 22. júní 2011 og 26. febrúar 2023. Og þar sem Strandgata 19 var máluð og yfirfarin að utan sumarið 2023 þótti mér ófært annað en að taka nýjar myndir af húsinu og þær eru teknar 21. janúar 2024.

Heimildir:
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_147.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 72, 10. maí 1886. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904, nr. 287, 25. feb. 1905 og nr. 322, 27. nóv. 1906. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 591, 8. apríl 1927. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00