Fara í efni
Pistlar

Jól í Eyrarvegi 35

EYRARPÚKINN - 18

Þegar vel veiddist af rjúpu í Vopnafirði fengum við svo marga fugla að austan að nægðu okkur sjö á aðfangadags- og gamlárskvöld.

Þá var hátíð í bæ.

Verst ef lambahryggur var á borðum bæði kvöldin. Lambahryggurinn príma matur og vel lagaður af mömmu, ekki vantaði það, en hversdaglegur miðað við rjúpurnar. Ilmur þeirra fyllti bílskúr, þvotthús og eldhús og að lokum holið, herbergin og stofuna og runnu lækir í munni við tilhugsunina um þær undursamlegu kvöldmáltíðir.

Klappaði ég og strauk rjúpunum frammi í skúr og taldi þær hvað eftir annað og bar saman banasárin.

Blessuð saklausa rjúpan hvíta sagði mamma og bar svuntuhornið snöggt að augum, nú fara jólin að koma!

Karl faðir hamfletti rjúpurnar á Þollák og var talað um að reyta þær en var aldrei gert.

Pabbi vann eins og þræll fyrir jólin á verksmiðjunni og rammagerð Nabbna og mamma fór valla úr fötum síðustu sólarhringana enda lagði eldhúsljósið og kökuilminn undir herbergishurðina þegar ég sofnaði og hvatti mig til dáða þegar ég spratt á lappir með eina görn í svartasta skammedeginu.

Tók ég smákökur og annað ófrjálsri hendi. Hugmyndaríkur og leita uppi kökurnar og skipti minnstu hvort voru í eldhúsi, búri, bílskúr eða öðrum vistarverum.

Mamma reyndi að fá mig onaf þessu með gæsku og umburðarlyndi en Kristín var hörð í horn að taka og hvein í henni Hættu þessu rupli Jói og fór um mig óblíðum höndum. Ekki lamb að leika sér við Dysta þegar augun skutu gneistum bak við Hornstrandargleraugun!

Því minna sem pabbi frétti því betra og mútaði ég Simma á mitt band og líkaði Simma vel enda sjaldan flotinu neitað.

Spennan og græðgin dreif mig áfram í leit að nýjum kökukassa, kexpakka, rúsínupoka, eplum og appelsínum. Allt hvarf oní mig eins og dögg fyrir sólu, sírópskökur, gyðingakökur, hálfmánar, kornflekskökur, röndótt terta og skúffukaka.

Númer eitt voru þó loftkökur Torfhildar móðursystur minnar því Hilla var sérfræðingur í loftkökubakstri og kunni kúnstina að lyfta þeim á æðra stig. Kæmu loftkökurnar snemma í Eyrarveginn var voðinn vís því þá einbeitti ég mér að þeim enda hreint sælgæti og ég forfallinn loftkökuneytandi frá fyrstu stundu.

Þegar búið var að baka loftkökurnar þurfti ekki að óttast eins mikið um annan bakstur og hámark munaðar þegar þær bráðnuðu á tungu og spillti ekki að skola þeim niður með Vallassi, Mix eða Cream Soda.

Þá var hátíð í bæ og ég lék mér ungur og óspilltur að gamla dótinu og taldi óþreyjufullur dagana þangað til ég gæti opnað nýju pakkana.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Jól í Eyrarvegi 35 er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Undurhrif tónlistarinnar

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
28. janúar 2025 | kl. 06:00

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30