Fara í efni
Pistlar

Heklupeysur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 24

Um og upp úr miðri síðustu öld var það svo á venjulegum alþýðuheimilum fyrir botni Eyjafjarðar að yngri börnunum voru búin þau örlög að fara í fatakostinn af eldri systkinunum. Bræðrum sínum og systrum. En nægjusemi var í hávegum.

Í mínu tilviki voru það garmarnir af Gunna bróður. Mér bauðst ekki annað en útslitnir larfarnir af honum. Aldrei ein einasta nýkeypt flík úr Kaupfélaginu, hvað þá úr Amaro, svo það varð að láta sig hafa það að fara í flíkurnar sem sá eldri var vaxinn upp úr. Bæði boli, buxur og peysur. Og sumt af því vesalar tirjur.

Því gott ef svona lagað situr ekki enn í sálartetri manns.

En það er af þessum sökum sem æskuminningarnar snúast ekki síst um endurbætur á notuðuðum fataræflum. Þá er setið við saumabekkinn og fylgst með því hvernig móðir manns umhverfir notuðu í nýtt, rétt eins og guðlegur máttur sem getur breytt vatni í vín, í anda þess sem Biblíusögurnar höfðu innrætt ungum og saklausum pilti í kapellunni undir Akureyrarkirkju.

Hún var sérlega lagin með Heklupeysurnar. En það mátti ekki henda nokkurri svoleiðis spjör. Þær entust nefnilega von úr viti, nema ef vera kynni ermarnar. En þá komu olnbogabæturnar til sögunnar. Mamma kunni á því ráðið. Hún prjónaði leppana úr fínum lopa sem hún þæfði og kappmellaði svo kantana og saumaði á gamla plaggið. En það varð að heita svo.

Heklupeysurnar dugðu kynslóðum saman. Sérstaklega eftir að Verksmiðjurnar niðri á eyrum byrjuðu að drýgja lopann með draloni. Það var að sögn sannkallað galdraefni. Ekkert virtist geta unnið á þeim, einkanlega búkstykkinu, sem var eins og brynja um mann miðjan sem stóð af sér hvaða vetrarveður sem var.

Fyrir vikið eru þær samofnar æsku manns. Í gömlu bekkjarröðinni stendur hver Heklupeysan af annarri í beinni röð og jafnar bilin. Með bótum á ermunum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KARTÖFLUR

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30