Fara í efni
Fréttir

„Forseta Íslands ber að vera til staðar fyrir Ísland“

Halla Tómasdóttir. Aðsend mynd

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.

Halla Tómasdóttir

 

Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?

Mér þykir einlæglega vænt um land og þjóð og vil leggja mig alla fram um að styðja hagsmuni Íslands og Íslendinga á öllum sviðum okkar samfélags. Ég trúi því að með virkjun sköpunargáfu okkar getum við áfram verið mikilvæg fyrirmynd og þannig haft jákvæð áhrif á heiminn.

Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?

Forseta Íslands ber að vera til staðar fyrir Ísland og Íslendinga á góðum stundum sem og erfiðum og tala fyrir hagsmunum lands og þjóðar. Styðja við íslenskt hugvit, listir, menningu, íþróttir og allt það góða sem hér á landi er að finna. Ísland hefur tækifæri til að vera fyrirmynd annarra þjóða í svo mörgu og þá sérstaklega þegar kemur að jafnrétti, sjálfbærni og friði. 

Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?

Já ég er það. Ég hef notið hennar, mér finnst mjög gaman að hitta fólk og fá að tala við það og heyra hvað skiptir það máli. Það er ómetanlegt tækifæri til að læra um samfélagið okkar, átta sig á hvar skórinn kreppir, og ekki síður að sjá allt það jákvæða sem fólk hefur fram að færa.

Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?

Fylgið fór hægt af stað, en ég finn mikinn meðbyr eftir Kappræðurnar á RÚV þann 3.maí. Kjósendur vilja sjá mig og meðframbjóðendur í hljóð og mynd. Fylgið þrefaldaðist eftir kappræðurnar og við finnum vaxandi meðbyr um allt land og höfum fulla trú á áframhaldandi jákvæðri þróun. 

Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?

Ég heyri að fólk á landsbyggðinni skynjar gjá milli sín og höfuðborgarsvæðisins og það hryggir mig og ég tel mikilvægt að sporna vel við slíkri þróun því við erum eitt land, ein þjóð, sem er sterkust þegar við stöndum saman og eflum hverja manneskju og hvert byggðarlag. Atvinnumöguleikar, aðgangur að menntun og heilbrigðisþjónustu og samgöngur eru lykilatriði svo fólk velji að búa um allt land. Fyrsta skrefið er að átta sig á stöðunni á hverjum stað, greina möguleikana og gera aðgerðaráætlanir, sem fylgt verður eftir. Hver staður hefur sína sérstöðu sem þarf að koma auga á. Tækninýjungar gefa mikla möguleika – en gleymum ekki tækifærunum sem fylgja umhverfi, náttúru, kyrrð og jafnvel vonda veðrinu. Styrkleikar Íslands eru ótal margir og sem forseti myndi ég leggjast í árar svo þeir megi nýtast landsmönnum um allt land sem best.

Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?

Já, ég hef þegar ferðast töluvert um landið, ég byrjaði á að fara vestur á firði, og hef síðan heimsótt Norðurland, Austurland, Vesturland, Suðurland, Vestmannaeyjar og Reykjanes. 

Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?

Mér finnst erfitt að gera upp á milli. Held ég hafi aðeins einu sinni verið á Akureyri í vondu veðri. Skíðin koma mér eðlilega fyrst í hug, við fjölskyldan höfum fengið marga góða byltuna í Hlíðarfjalli gegnum árin. Ég hef líka dálæti á Leikhúsinu, hef nokkrum sinnum farið sérstaklega norður til að sækja leikhús og tónleika og til að fara út að borða á þeim fjölmörgu og frábæru veitingastöðum sem er að finna á Akureyri. Sundlaugin finnst mér dásamleg og þau eru ófá íþróttamótin sem við fjölskyldan höfum tekið þátt í hér fyrir norðan. Í síðustu ferð fórum við í fyrsta sinn í Skógarböðin sem er dásamlegur staður og fengum okkur Bessabita. Akureyri hefur upp á margt að bjóða.

Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)

Ég myndi þiggja góða leiðsögn um húsið og staðarhætti. Svo spái ég því að við fjölskyldan förum í langan göngutúr um nágrennið og nálægar fjörur áður en við skellum okkur í laugina. Kannski bönkum við upp á hjá nágrönnunum og kynnum okkur í þeirri von að fá kaffisopa. Ég hef svo sagt að ég hlakki mest til þess að fá næstu kynslóð til samtals um framtíðina. 

Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?

Án dugnaðar, hugrekkis og samheldni hefðum við ekki haldið Íslandi í byggð.