Fara í efni
Fréttir

„Ég legg áherslu á rætur okkar, sögu, tungu og menningu“

Katrín Jakobsdóttir. Aðsend mynd

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.

Katrín Jakobsdóttir

 

Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?

Ég býð mig fram í þetta embætti því ég trúi því einlæglega að ég geti unnið samfélaginu gagn á þessum vettvangi. Þetta er mikilvægt embætti sem getur haft mikil áhrif bæði hér heima og að heiman. Ég legg áherslu á rætur okkar; íslenska sögu, menningu og íslenska tungu. Þar tel ég að embætti forseta geti gert mikið gagn í að lyfta umræðu um þessi mál og gera það með þeim hætti að við tækjum utan um landsmenn alla, óháð uppruna, aldri og búsetu. Ég legg áherslu á þátttöku allra í samfélaginu í gegnum íþróttir, menningu, tómstundir og hvers kyns samfélagsstarf sem bæði er gagnlegt fyrir okkur sem einstaklinga en líka mikilvægt fyrir samfélagið allt. Og ég legg áherslu á þau gildi sem ég tel að við getum flest sameinast um: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og friðsamlegar lausnir. Það eru viðsjárverðir tímar í heiminum og það skiptir máli að okkar rödd heyrist hátt um þessi gildi. Ég er sannfærð um að reynsla mín og þekking á ýmsum sviðum geti gagnast mjög í þessu embætti.

Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?

Forsetinn hefur að sjálfsögðu það hlutverk að nýta áhrif sín til góðs eins og ég kom að hér í fyrra svari. Það er að mínu viti eitt mikilvægasta hlutverk forsetans! En hann hefur líka formlegu hlutverki að gegna sem skilgreint er í stjórnarskrá, hann þarf til dæmis að tryggja að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn og hann getur skotið málum til þjóðarinnar sem er mikilvægt hlutverk. Þá hefur forseti hlutverki að gegna á erlendri grundu við að gæta hagsmuna Íslands, tala fyrir gildum okkar og vera góður fulltrúi lands og þjóðar.

Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?

Mín kosningabaràtta hefur verið jákvæð, uppbyggileg og málefnaleg og ég er mjög stolt af henni - þannig ætlum við að hafa hana áfram!

Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?

Ég held að þetta verði spennandi barátta áfram en er ánægð með að sjá mitt fylgi á uppleið og finna góðar móttökur og baráttugleði um land allt.

Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?

Ég finn það á öllum mínum fundum að fólk hefur áhyggjur af skilningsleysi á ólíkum aðstæðum fólks eftir því hvar það býr - hvað varðar samgöngur, aðgengi að þjónustu eða aðra innviði - og þar getur forseti gert gagn, vakið athygli á ólíkum aðstæðum og sinnt landinu öllu með mjög virkum hætti - sinnt störfum sínum frá ólíkum stöðum og sett byggðaþróun á dagskrà.

Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?

Ég er búin að halda fund á Akureyri og raunar allvíða á Norðurlandi, Grenivík, Svalbarðsströnd, Hrísey, Eyjafjarðarsveit, Dalvík, Siglufirði og Ólafsfirði. Þá er ég byrjuð að taka Þingeyjarsýslur, Skagafjörð og Húnavatnssýslur en við erum búin að fara víða. Framundan eru heimsóknir á Raufarhöfn og Þórshöfn og eins mun ég koma aftur til Akureyrar fyrir kosningar - á annan í hvítasunnu og svo 26. maí.

Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?

Við fjölskyldan höfum stundum fengið að gista hjá vinafólki okkar í Aðalstræti og mest gaman er einfaldlega að ganga um bæinn og njóta veðurblíðunnar sem er alltaf (er það ekki annars?), skoða húsin og ganga brekkur. Lystigarðurinn er einn af mínum uppáhalds stöðum, ég hef farið bæði á frábærar leiksýningar og listasýningar og svo er auðvitað Akureyrarkirkja eitt af mínum eftirlætis mannvirkjum! Og reyndar gaman að nefna líka að þegar ég var að basla við að skrifa meistararitgerð mína fékk ég aðstöðu í HA í viku eða tíu daga og þá fyrst komst verkið á skrið! Þar kunni ég vel við mig.

Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)

Ekki hugmynd - ætli það væri ekki bara að líta í kringum mig og anda djúpt?

Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?

Við getum sýnt ótrúlega seiglu og viðnámsþrótt á sama tíma og við erum líka skemmtilega afslöppuð. Við erum samheldin þótt við séum ósammála og ég vona að það verðum við áfram. Og svo getum við gert kraftaverk þegar á þarf að halda - það er magnaður eiginleiki.