„Ég legg áherslu á mannréttindi og málefni barna og ungmenna“
Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.
Baldur Þórhallsson
Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?
Ég trúi því að við getum gert landið og þjóðina að einni heild. Það þýðir að ég vil stuðla að því að við einblínum á það sem sameinar okkur. Ég mun alltaf eins og hingað til standa vörð um mannréttindi og tryggja hagsmuni okkar erlendis. Auk þess vil ég að við stöndum fremst meðal þjóða í málefnum barna- og ungmenna rétt eins og við stöndum fremst meðal þjóða í jafnréttismálum.
Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?
Á milli þjóðar og forseta er beint og milliliðalaust samband - og forseti verður alltaf, algjörlega án nokkurra undantekninga, að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar efst í huga. Forseta ber að virða þingræðið og honum ber að tryggja að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn á grundvelli vilja Alþingis.
Forsetinn hefur dagskrárvald í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Þegar forsetinn talar, þá er á hann hlustað. Þetta vald getur forsetinn notað til þess að leggja áherslu á málefni sem hann forgangsraðar hér heima. Sjálfur hef ég sagst ætla að forgangsraða þeim málum er snúa að mannréttindum allra samborgara okkar og leggja áherslu á málefni barna og ungmenna.
Það sama má segja um rödd forseta erlendis. Forseti getur þar lagst á árar með stjórnvöldum og staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu. Forseti getur opnað margar dyr erlendis — bæði fyrir stjórnvöldum og fólkinu í landinu. Við eigum að nýta forsetaembættið til að að opna dyr og leiða fólk saman, hér heima og erlendis.
Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?
Já, þetta er búið að vera ævintýri líkast. Fjöldi þeirra sem vinnur að þessu framboði er núna á sjötta hundrað um land allt og að finna kraftinn í bæði þeim og þeim þúsundum sem við höfum hitt á ferðalagi okkar um landið allt er eiginlega alveg ólýsanlegt.
Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?
Ég er fyrst og fremst mjög þakklátur fyrir þann mikla og stöðuga stuðning sem þær hafa sýnt. Ég er líka mjög stoltur af því að vera vinsælasta annað val kjósenda, og í nýlegri könnun kom fram að flestir treysta mér fyrir embættinu. Ég er því algjörlega sannfærður um að við siglum þessu í höfn 1. júní.
Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?
Ég er alinn upp á bæ foreldra minna við Rangá, rétt utan við Hellu. Ég upplifði það sjálfur að þurfa að byrja barnungur að spara og leggja fyrir til þess að eiga fyrir þaki yfir höfuðið því mig langaði til þess að mennta mig. Sem betur fer hefur heimurinn minnkað síðan og valkostir og tækifæri sem blasa við ungu fólki auðvitað margfaldast. Við megum aldrei gleyma hvað við erum gríðarlega heppinn í því.
Hins vegar hef ég áhyggjur af aukinni skautun í samfélaginu. Mér finnst ég verða sífellt meira var við það að við séum að hólfa okkur niður í þjóðfélagshópa og þá um leið hætt að tala um okkur sem eina heild.
Það er algjör grunn forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að byggja upp Ísland, að allir upplifi að þau hafi sömu tækifæri til þess að nýta hæfileika sína til fulls óháð til dæmis búsetu, kyni eða kynhneigð.
Ég vil sem forseti taka þátt í að snúa við þessari þróun í átt að aukinni skautun. Ég vil nýta forsetaembættið í að tala þjóðina okkar upp sem eina heild. Eitt menntasvæði, eitt menningarsvæði, eitt samgöngusvæði, eitt heilbrigðissvæði og eitt atvinnusvæði.
Ef við hugsum ekki um okkur sjálf sem eina heild, afhverju ættu þá aðrir að gera það?
Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?
Fyrstu vikur kosningabaráttunnar fóru í hringferð um landið þar sem ég stoppaði meðal annars á Akureyri í tvo daga og hélt stóran fund í VMA þar sem mættu á þriðja hundrað manns.
Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?
Uppáhaldsstaðurinn minn á Akureyri er Lystigarðurinn. Það er algjör paradís.
Uppáhalds afþreyingin mín er Crossfit stöðin Norður sem ég heimsótti í hringferðinni okkar. Svo verð ég auðvitað að minnast á sundlaugina. Ég er auðvitað ekki að segja neinum fréttir hér, en Akureyrarlaug er alveg rosalega vel heppnuð sundlaug og mér finnst ég ekki hafa farið almennilega til Akureyrar nema hafa farið í sund.
Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)
Fá börnin og barnabörnin í mat. Við höfum undanfarin ár notið þeirra gæfu að búa í næsta húsi við dóttur okkar og sonur okkar skammt undan. Við höfum notið þessarar miklu nálægðar mjög mikið og erum sammála um að ef við ætlum að gera annan stað að heimili þurfum við á þessari nálægð barna og barnabarna að halda. Það verða því engir afslættir á mætingaskyldu í sunnudagsmatinn, þó þau geti ekki lengur labbað yfir.
Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?
Þvert á það sem maður myndi ætla hefur okkur tekist að byggja upp samfélag hér á eyju í Norður Atlantshafi sem sættir sig ekki við neitt annað en að vera borin saman við það besta sem býðst í heiminum. Og ef við erum ekki best í einhverju, þá erum við allavega best miðað við höfðatölu!
Þetta sterka samfélag gátum við búið til vegna þess að við stóðum saman. Við þurftum ekkert að vera sammála um allt, og við þurftum ekkert að hugsa eins eða vera eins. Við þurftum bara að standa saman.
Samstaðan er okkar mesti styrkleiki, og við megum ekki glata þeirri samstöðu. Það er, eins og ég hef sagt oft áður, algjör forsenda fyrir öflugu framhaldi á okkar stórkostlegu sögu.