Fara í efni
Pistlar

Fenjaviður – þá var Ísland rangnefni

TRÉ VIKUNNAR XXII

Elstu setlög Íslands geyma leifar fjölbreyttrar flóru sem óx á Íslandi við allt annað loftslag en nú ríkir á landinu. Meðal þeirra trjátegunda sem uxu hér var fenjaviður eða Glyptostrobus eins og ættkvíslin kallast á latínu. Tegundir af þeirri ættkvísl finnast ekki lengur í nágrenni landsins. Aftur á móti vex ein tegund ættkvíslarinnar í Asíu. Hún gefur okkur vísbendingar um hvernig fenjaviður leit út á Íslandi og við hvers konar aðstæður hann óx. 

Það er ekki margt í núverandi flóru sem sjá má í Botni í Súgandafirði sem minnir á þann gróður sem þar óx fyrir 15 milljónum ára. Sjá má manneskju skoða setlögin sem geyma steingervingana. Þeir segja þeim sögu sína sem kunna að lesa þessar heimildir. Mynd: Friðgeir Grímsson. 

Fundur á Íslandi

Elsta þekkta setlagasyrpa á Íslandi sem geymir steingervinga er svokölluð Selárdals-Botns setlagasyrpan sem talin er um 15 milljón ára gömul. Hún kemur fram á útskögum Vestfjarða og er víða aðgengileg (Leifur og Denk 2007). Setlagasyrpan geymir fjölbreyttar menjar þess gróðurs sem var á landinu á þessum tíma. Fundist hafa greinar, lauf, barr, fræ, aldin, könglar og frjó sem oft má greina til ætta, ættkvísla og jafnvel tegunda. Gróður á þessum tíma virðist hafa verið mjög fjölbreyttur og mismunandi eftir svæðum. Hér er kastljósinu fyrst og fremst beint að Botni í Súgandafirði þar sem fenjaviður hefur fundist. Plöntusamfélagið þar hefur verið allt annað en t.d. í Selárdal þar sem engar leifar fenjaviðar hafa sést í jafn gömlum setlögum.

Í grein sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 2007 segir frá elstu flóru Íslands (Leifur og Denk 2007). Þar segir að í jarðlögunum í Botni beri mest á leifum barrtrjáa en lítið finnst af lauftrjám. Mest ber á greinum fornrauðviðar, Sequoia abietina og evrópufenjavið Glyptostrobus europaeus, sem þeir félagar kalla reyndar evrópuvatnafuru eins og algengast er. Fleiri tegundir hafa fundist og verður sumar þeirra nefndar hér síðar.

Þess má geta að fornrauðviðurinn og fenjaviður tilheyra sömu ætt og eru töluvert skyldar. Þær eiga það einnig sameiginlegt að á okkar dögum eru eingöngu til ein tegund af hvorri ættkvísl (Wells 2010).

Steingervingur af fenjavið á síðu Amerikan Conifer Society. Hann er sagður um 49 milljón ára gamal. Hann er því miklu eldri en elstu, íslensku steingervingarnir. 

Fenjaviður á okkar dögum

Svo er að sjá sem fenjaviður hafi verið býsna algengur á tertíer. Á það ekki bara við um Ísland heldur einnig Ameríku, Evrópu og Asíu. Nú er einungis ein tegund til af þessari ættkvísl. Kallast hún Glyptostropus pensilis og vex meðfram ám og á öðrum rökum svæðum svo sem í fenjum, mýrum og flæðilöndum í suðausturhluta Kína og í norður Tailandi (Wells 2010). Hann getur vaxið í að minnsta kosti 60 cm dýpi og myndar þá svokallaðar loftrætur. Þær vaxa upp úr vatninu og hjálpa trénu að ná í súrefni. Á þurrari stöðum myndar hann ekki svona loftrætur. (Amerikan Conifer Society) Vaxtarstaðir þessarar tegundar eru mun hlýrri en við getum boðið upp á hér á Íslandi. Meðalhiti hlýjustu mánaðanna er yfir 22°C og víðast hvar á útbreiðslusvæðinu eru þurrkatímabil. Það á þó ekki við um alla núverandi vaxtarstaði. Sums staðar á vaxtarsvæðunum er hlýtt og rakt allt árið (Denk og drengirnir 2011). Tréð er barrtré sem fellir barrið, rétt eins og lerkið okkar gerir. Við bestu skilyrði getur það orðið um 30 metrar á hæð eða jafnvel meira. Stofninn getur orðið meira en metri í þvermál og er áberandi þykkastur neðst.

Fenjaviður getur verið glæsilegur í einkagörðum eins og hér í New Plymouth á Nýja Sjálandi. Á svona stöðum myndar tegundin ekki loftrætur. Myndin er fengin frá International Dendrology Society og hana tók Tom Christian í nóvember 2017. 

Núlifandi fenjaviður finnst varla lengur villtur í náttúrunni. Sumar heimildir segja að hann sé eingöngu til í ræktun en aðrar heimildir ganga ekki svo langt. Honum hefur víða verið nánast útrýmt með skógarhöggi. Aftur á móti er tegundin sjálf ekki talin í útrýmingarhættu því henni er víða plantað við árbakka og hrísgrjónaakra til að verja bakka fyrir vatnsrofi.

Merkilegt má heita að samkvæmt Denk og drengjunum (2011) er ekki mikinn mun að sjá á núlifandi fenjavið og íslenskum steingervingum. Núverandi fenjaviður gefur því góða hugmynd um hvernig skyld tré litu út á Íslandi fyrir um 15 milljónum ára.

Ungur fenjaviður í haustlitum í Oregon Garden.

Nafnið

Heiti ættkvíslarinnar, Glyptostropus, merkir eitthvað í líkingu við útskorinn köngull. Könglar ættkvíslarinnar líta út fyrir að vera einmitt það. Útskornir. Þeir eru það þó auðvitað ekki. Núlifandi tegund hefur viðurnefnið pensilis sem merkir hangandi. Það vísar til þess að barr og greinarnar hanga á trénu. Fenjaviðurinn sem óx á Íslandi hefur viðurnefnið europaeus og er auðskilið.

Könglar fenjaviðar eru mikið skraut. Myndin er fengin héðan en hana tók Tony Rodd.

Þegar könglarnir opnast er eins og einhver hafi skorið þá út. Þaðan kemur nafnið. Myndin fengin héðan en hana tók Michael Becker. 

Þessi köngull myndaðist fyrir um 15 milljónum ára. Síðan hefur hann pressast dálítið undan þunga jarðlaganna. Samt má sjá að hann er ekki ósvipaður þeim könglum sem sjá má á myndunum hér að ofan, enda af sömu ættkvísl. Kvarðinn (svarta, lárétta strikið) er 1 cm. Mynd: Friðgeir Grímsson. 

Áður hefur tegundin gjarnan verið nefnd vatnafuru á Íslandi. Fellur það vel að vaxtarstöðum tegundarinnar. Það nafn er meðal annars notað af Leifi og Denk árið 2007 og það er einnig að finna í Íðorðabanka Árnastofnunar. Aftur á móti verður ekki hjá því komist að nefna að þetta er alls ekki fura. Tréð er ekki einu sinni af sömu ætt og furur. Því er þetta dálítið óheppilegt heiti. Í ágætum pistli sínum, sem birtist á þessum síðum í desember síðastliðnum, kallaði Helgi Þórsson þessa tegund fenjavið. Það er ljómandi gott nafn og er notað í þessum pistli.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

     

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00