„Dreymið varlega því draumar geta ræst“
Hver er hann þessi nýi Baldvin? Gestir og gangandi, eða fljúgandi, sem staldra við í flugstöðinni á Akureyrarflugvelli spyrja sig ef til vill þessarar spurningar. Yfirbragðið á veitingasölunni er alþjóðlegt, sem hæfir alþjóðaflugvelli. Ítalskur vert sem talar ensku eins og sannur Ítali, en lætur íslenskuna að mestu leyti eiga sig. Hann er reyndar með ungan aðstoðarmann sem hjálpar með íslenskuna. Úkraínsk eiginkona og systir eru með honum í þessu.
Akureyri.net fjallaði á dögunum um starfslok Baldvins H. Sigurðssonar sem rak Flugkaffi í hartnær tuttugu ár. Nú er komið að því að kynnast hinum ítalska Baldvin, Raffaele Marino.
Fólk á ferð og flugi þarf þjónustu og veitingar. Vingjarnlegt viðmót, spjall og léttur húmor skemmir heldur ekki fyrir. Eftirmaður eða arftaki Baldvins í veitingasölunni á Akureyrarflugvelli á ýmislegt sameiginlegt með forvera sínum. Jafnvel svo að mætti kalla hann hinn ítalska Baldvin. Hans rétta nafn er Raffaele Marino, en hann er alltaf kallaður Lello og bauð upp á kaffi og ítalskt sætabrauð með spjallinu. Staðinn kallar hann Eatalian. Skemmtilegur orðaleikur.
Starfsmenn á vaktinni. Frá vinstri: Lorenzo Baruchello, Olha Mud, Raffaele Marino og Maddalena Marino. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Lello samdi við Isavia um að sjá um veitingarekstur, en samningurinn er ekki til langs tíma því nú standa yfir framkvæmdir á Akureyrarflugvelli, viðbygging og breytingar í nánustu framtíð. Samningurinn er um veitingasölu á staðnum eins og hann er nú, en svo verður farið aftur yfir málin þegar nýbyggingin verður tekin í notkun.
Fjölskyldan vinnur saman
Lello er ekki einn á vaktinni því með honum í rekstrinum er hin úkraínska eiginkona hans, Olha, og systir hans, Maddalena. Þau eru öll með reynslu af störfum í veitinga- og gistigeiranum. Olha framreiðir sérstaka súpu sem ætla má að eigi rætur sínar að rekja í Úkraínu. Maddalena með mikla reynslu af hótelstörfum, en þau störfuðu í nokkur ár á Fosshótelinu á Laugum í Reykjadal.
Eflaust kannast margir Akureyringar við Lello því hann hefur rekið lítinn veitingastað, veitingavagninn Lasagna and more, í göngugötunni. Umsagnirnar um hann á Trip Advisor gefa til kynna að maðurinn sé sérlega viðkunnanlegur og vingjarnlegur og það staðfestist með nærveru hans á nokkrum sekúndum. Það er ekki að ástæðulausu að talað er um hinn nýja eða hinn ítalska Baldvin. Hann segir enda mikilvægt að ná góðu sambandi við viðskiptavinina, vera vingjarnlegur, spjalla og kynnast þeim. Þetta hljómar nánast eins og lýsing á Baldvini hinum íslenska, forvera hans í flugstöðinni.
Get ekki verið tvisvar
Lello segir vin sinn, ítalskan prófessor við Háskólann á Akureyri, hafa sagt sér frá því að vinur hans á flugvellinum, Baldvin, væri að leita að einhverjum til að taka við rekstrinum, en hefði áhyggjur af þeim sem tæki við. „Af því að svona rekstur, ef þú vinnur mikið sjálfur þá geturðu gert eitthvað, en ef þú ræður fullt af fólki þá ferðu hausinn á nokkrum mánuðum,“ segir Lello. „Áskorunin er að stýra rekstrinum og veita fólkinu þjónustu. Þetta er alþjóðaflugvöllur og við verðum að veita þjónustu, en ég vona að ég geri eitthvað sem fólk lítur á sem meira en bara þjónustu.“
Gestir í mat. Frá vinstri: Jürgen Jamin sóknarprestur kaþólska safnaðarins á Akureyri, Raffaele Marino, Maddalena Marino og Lucio Ballester, aðstoðarprestur kaþólska safnaðarins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Lello er með ekta ítalska rétti á matseðlinum, pastarétti, lasagna, carbonara og fleiri áþekka rétti í bland við samlokur og fleira. Bakkelsið skiptir líka máli, ítalskt sætabrauð, cannoli, súkkulaðikaka og svo auðvitað cornetti, ítalska hliðstæðan við hin frönsku croissant, stærra en það franska og ýmist borðað með sykri á eða sérstakri kremfyllingu. Cappucino og cornetti, fullkominn ítalskur morgunverður. Lello er frá Napoli og býður að sjálfsögðu upp á rétti þaðan. Lello er tiltölulega nýbyrjaður með reksturinn á flugvellinum og segir ýmislegt enn í vinnslu, eins og vefsíðuna, eatalian.is.
„Við ætlum að bjóða vikulega upp á einhvern nýjan rétt. Við ætlum að reyna að ná ekki aðeins til flugfarþega heldur íbúa sem vilja prófa ítalskan mat og geta loksins sest niður, ég segi loksins því ég hef rekið veitingavagninn Lasagna and more í Hafnarstræti. Núna þarf ég að ákveða mig því ég get ekki verið tvisvar,“ eins og Lello orðar það á enskunni sinni. Hann getur ekki verið á tveimur stöðum í einu. „Ég verð að vera hér eða þar. Núna er ég kannski að bregðast einhverjum, en mögulega verð ég með opið í Hafnarstræti suma daga og lokað suma, ég veit það ekki.“
Lello og Baldvin náðu vel saman
Lello og Baldvin hittust og ræddu saman áður en ákveðið var að hann tæki þennan rekstur að sér enda vildi Baldvin koma þessu nostri í góðar hendur. „Já, við ræddum mikið saman. Frá fyrstu stundu náðum við vel saman og áttum góð samtöl,“ svarar Lello spurður um kynni þeirra Baldvins.
„Það er hugrakkt af honum að setjast í helgan stein, því þegar þú ert vanur að gera eitthvað og búinn að gera það í mörg ár þá er það erfitt. Ég sagði við Baldvin: Þú ert ennþá meistarinn. Þú getur komið hingað á flugvöllinn og gert eitthvað því við vitum hvernig maður þú ert. Hann er mjög góð manneskja. Ég er ánægður því þegar maður gerir svona í mörg ár og þekkir marga þá tengist þú staðnum og skilur einhvern hluta af sálinni eftir. Ég held að hann sjái ennþá um staðinn þó hann vinni ekki hérna lengur,“ segir Lello um Baldvin og viðskilnaðinn á flugvellinum.
Elskar að tala við fólk
Lello nýtur þess að hitta fólk, kynnast viðskiptavinunum. „Já, ég elska að tala við fólk. Baldvin sagði að ég væri fullkominn eftirmaður því ég talaði og gantaðist við fólk eins og hann. Ef þú talar ekki og grínast við fólk, brosir til fólks, þá verðurðu dapur og mér líkar ekki við dapurt fólk, mér líkar ekki við sjálfan mig ef ég er dapur. Mér líkar að tala við fólk, grínast og vera góður við fólk.“
Lello var ekki að leita sérstaklega að nýju tækifæri, en hann er ekki í vafa um af hverju það bauðst. „Ég var ekki að leita að svona tækifæri. En þegar þú leggur hart að þér þá gerist eitthvað. Farðu varlega í að láta þig dreyma því stundum rætist draumarnir,“ segir Raffael Marino, hinn ítalski Baldvin, og brosir vingjarnlega áður en hann kveður og snýr sér aftur að vinnu sinni á Eatalian á Akureyrarflugvelli.