Fara í efni
Fréttir

Af hverju mismunandi brottfarar- og komuverð?

Komu- og brottfararfarþegar í millilandaflugi á Akureyrarflugvelli nota sömu frihafnarverslun.

Farþegar sem farið hafa í gegnum fríhöfnina á Akureyri hafa líklega tekið eftir því að þar eru tvö mismunandi verð á áfengi og tóbaki. Þetta er vegna þess að fríhöfnin á Akureyri sinnir bæði komu- og brottfararfarþegum.

„Þegar þú ert að koma til Íslands og ert að versla áfengi eða tóbak í fríhöfninni þá leggjast áfengis- og tóbaksgjöld ofan á vörurnar, samkvæmt lögum, og þess vegna er varan dýrari en þegar þú ert á leið úr landi,“ segir Svala Rán Aðalbjörnsdóttir, hópstjóri flugverndar á Akureyrarflugvelli þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hennar til að forvitnast um verðmiðana í fríhöfninni sem sýna tvö mismunandi verð á sama verðmiða.  Að sögn Svölu er þessi verðmunur á áfengi og tóbaki ekki eins sýnilegur í fríhöfnunum á Keflavíkurflugvelli þar sem ein verslun er fyrir komufarþega og önnur fyrir brottfararfarþega. Þar er því ekki þörf á verðmiðum með bæði komu- og brottfararverði, eins og á Akureyrarflugvelli þar sem allir farþegar í millilandaflugi nota sömu fríhafnarverslunina.

Verðmiðarnir í fríhöfninni á Akureyri geta virkað ruglandi því sitthvort verðið er fyrir áfengi og tóbak eftir því hvort farþegar eru að koma eða fara. Alltaf er ódýrara að versla áfengi og tóbak á leið úr landi þar sem þá leggst áfengis- og tóbaksgjald ekki ofan á vörurnar.

Vinsælustu vörurnar í Keflavík líka á Akureyri

Vöruúrvalið í fríhöfninni á Akureyri er ekki jafn fjölbreytt og á flugvellinum í Keflavík og er það eingöngu út af stærð fríhafnarinnar. „Til að byrja með völdum við bara inn þær vörur sem seljast best í Keflavík en undanfarna mánuði höfum við verið að aðlaga úrvalið að okkar kúnnahóp og eftirspurn ,“ segir Svala en verslunin, sem opnaði þann 20. september síðastlinn, er rekin af  Isavia innanlandsflugvellir í samvinnu við Duty free Iceland í Keflavík. 

 

Fleiri starfsmenn ráðnir

Þegar Svala er innt eftir því hvort aðstaða fríhafnarinnar sé ekkert of lítil og hvort komufarþegar átti sig á því að fara þangað áður en töskurnar eru sóttar, segir hún að starfssemin hafi gengið mjög vel þrátt fyrir fáa fermetra. Segir hún gott fólk í öllum hornum, allt sé vel merkt í flugstöðinni og þá sé starfsmaður til taks sem bendi komufarþegum á hvar hægt sé að fara í fríhöfnina áður en farið er í röðina fyrir vegabréfseftirlitið. Þess má líka geta að nýlega bættust sex nýir starfsmenn við flugverndina og fríhöfnina á Akureyrarflugvelli svo í heildina starfa þar nú 25 manns í föstu starfi.