Fara í efni
Pistlar

Dragsúgur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 35

Mest um vert var að lofta út. Almennilega. Sú var lífsspekin. Það var í öllu falli afstaða Guðrúnar ömmu. Og hún geymdi reynslu kynslóðanna í kolli sínum. Svo mikið var víst. Alin upp í aumri vist á óhrjálegum hjáleigum á Héraði, og vissi aldrei hvar í koju henni væri vísað, enda aðkominn, og enginn vissi deili á hennar högum, aðeins það eitt að hún væri utanbanda, eins og það hét.

En það væri þetta með lokuð afrými. Henni hafði verið kennt að þangað leitaði lyktin. Og færi hvergi. Nema að vistarverurnar væru opnar upp á gátt. Og helst um daglengd. Fram á kvöld.

Gegnumtrekkur gerði gæfumuninn. Og þar var trúarjátningin komin. Og guðsóttinn við djöfullegan dáminn sem fylgt hafði torfbæjunum um aldir.

En gott ef amma varð ekki bókstafsþenkjandi í þeim efnum eftir að hún flutti í fyrstu fasteignina á hennar eigin nafnnúmeri. Gilsbakkavegur 1. Efri hæð. Risíbúð. En þar skyldi sko aldrei verða fótalykt. Eins og það var kallað. Og var vísast ekki til verra orð yfir dragúldinn dauninn af dauðlegum mönnum.

Svo við urðum þessu vön. Dyntum hennar og daglegum kenjum. Og galopnir gluggar um allar hliðar hússins urðu allt eins vanalegir og dyrnar upp á gátt. Það skyldi lofta út. Hér og nú. Og hleypa ferskum andvaranum inn.

Ég sé hana enn þá fyrir mér í Hagkaupssloppnum, einmitt með viskastykkið í höndum, að vængberja innlögnina upp um loft og veggi, en annað væri varla mikilvægara en að afgreiða íbúðina af illa stöðnum óþef. Ella félli hún í verði.

Og það yrði að standa þessa vakt með virktum. Sérhvern dag og alla tíma ársins.

Því ekkert lyktaði verr en lokuð kames.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: DAUÐINN BAK VIÐ STÝRIÐ

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00