Fara í efni
Pistlar

Blýdátar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 33

Jón frændi státaði af langtum betri bardagamönnum en til voru í vopnabúri okkar bræðranna á Syðri-Brekkunni. Því við Gunni bróðir áttum bara tindáta. Móðurbróðurinn hafði aftur á móti gegnheila blýdáta í fórum sínum sem steyptir höfðu verið í glóandi form sín fyrr á öldinni. En það var miklu meira alvöru. Og stríðin voru eftir því.

Ég man enn þá hvað ég handlék þá af mikilli virðingu niðri í Gilsbakkavegi ef mér hlotnaðist sá heiður að snerta þá, en þeir voru geymdir í skókassa undir rúmi, og teknir því aðeins fram ef tími gafst til að stilla þeim upp í heiðursröð. En þar þurfti gáfur til. Því lykillinn var að vera læs á bemark hvers og eins.

En svo var friðurinn úti. Því Jón fór alltaf í sveitina um heyannir. Alla leið í Fjósatungu í fremri skikum Fnjóskadals. Og það er annar landshluti, að manni fannst. Og því þá ekki eigna sér allt safnið hans um stund. Og efna til ófriðar.

En þessi var þá ástæðan að strákhvolpur á borð við sjálfan mig gat einatt falið sig inni í búri undir suðursúðinni. Um hásumar. Dögum saman. Því þá voru vígalegar hersveitirnar tíndar upp úr kassanum og komið fyrir í gluggakistunni, hvorri á móti annarri, svo vart sá lengur ofan á skarmenið, eins og amma kallaði syllurnar undir rúðunum á sínu heimili. En allt var fínna, héti það upp á dönsku.

Í mínum augum mátti það einu gilda. Því hugurinn var allur við fyrirliggjandi orrustu. Þá var staðið í báða fæturna ofan á skammelinu undir búrglugganum og litlum fingrum læst um hvern stríðsmanninn af öðrum, sem við það gekk í skrokk á næsta dáta. Svo á endanum lá helftin dauð út um trintinn og trantinn.

Að svo búnu voru liðnir lífgaðir við. Í einni svipan. Svo aftur mætti drepa þá.

Og svo aftur og aftur, enda enginn friður í boði í búrglugganum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SYKUR

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00