Fara í efni
Menning

Ólympíukappi dæmdur fyrir samkynhneigð

Guðmundur Sigurjónsson glímukappi og ólympíufari á heimili sínu í Reykjavík.

SÖFNIN OKKAR – XIX
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Fuglakórinn söng yfir ólympíukappanum sem dæmdur var fyrir samkynhneigð

Guðmundur Sigurjónsson glímukappi og ólympíufari var fæddur 15. apríl 1883 á Litluströnd í Mývatnssveit, sonur hjónanna Friðfinnu Davíðsdóttur og Sigurjóns Guðmundssonar. Hann var næstyngstur tíu systkina en þekktastur bræðra hans var Benedikt, Fjalla-Bensi, sem sagður er fyrirmynd nafna síns í Aðventu Gunnars Gunnarssonar.

  • Meðfylgjandi ljósmynd Bárðar Sigurðssonar er úr safni Minjasafnsins á Akureyri. Safnið býr yfir rúmlega þremur milljón mynda og mörgum þeirra fylgja áhugaverðar sögur. Nánar hér um sögu myndarinnar. 

Þótt Guðmundur væri lágvaxinn var hann afar snjall glímumaður. Sumarið 1907 var hann í flokki pilta í konungsglímunni á Þingvöllum til heiðurs Friðriki konungi VIII. Ári síðar var sviðið enn stærra, sjálfir Ólympíuleikarnir í London. Þar var Guðmundur í flokki Íslendinga sem sýndi íslenska glímu undir forystu Jóhannesar Jósefssonar, sem oft er kenndur við Hótel Borg.

Eftir stutta dvöl í Englandi árið 1913 hélt Guðmundur vestur um haf til Kanada. Þar áttu nú sem fyrr íþróttir hug hans allan ekki síst íshokkí sem hann lék með Winnipeg Falcons, Fálkunum, en liðsmenn voru allir af íslenskum ættum. Kannski hjálpaði það Guðmundi að hafa leikið sér og stundað glímu á ísilögðu Mývatni en hann náði mikilli hæfni í íþróttinni og tók að sér þjálfun Fálkanna. Heimstyrjöldin setti þar strik í reikninginn því Guðmundur gerðist hjúkrunarmaður á vesturvígstöðvunum árið 1916. Fálkarnir tóku aftur upp þráðinn eftir stríð undir stjórn Guðmundar og voru valdir til að keppa á vetrarólympíuleikum í Antwerpen árið 1920 þegar íshokkí varð viðurkennd ólympíugrein. Þar sigruðu Fálkarnir alla andstæðinga sína með yfirburðum.

Hugurinn leitaði heim og sama ár flutti hann aftur til Íslands eftir skamma veru í Svíþjóð. Guðmundur gerðist íþróttakennari í Reykjavík og gæslumaður á Litla-Kleppi. Guðmundur var bindindismaður og framarlega í flokki Góðtemplara. Hann var ötull baráttumaður gegn áfengisneyslu. Á bannárunum upplýsti hann lögregluna reglulega um ólöglega sprúttsölu við litla ánægju sölumanna. Þeirra krókur á móti bragði var að láta kæra Guðmund árið 1924 fyrir samkynhneigð sem var ólögleg. Upphófst mikill málarekstur og yfirheyrslur yfir fjölda karlmanna. Á meðan rannsókn málsins fór fram var Guðmundur látinn dúsa í gæsluvarðhaldi og einangrunarvist. Allar ásakanir um illa meðferð á sjúklingum á Litla-Kleppi reyndust ekki á rökum reistar. Hins vegar var hann dæmdur fyrir samkynhneigð og fangelsisvist í 9 mánuði og sat inni í 3 mánuði.

„Stóra kynvillumálið“ eins og það var kallað varð fréttaefni í blöðum og umtalað í þjóðfélaginu. Guðmundur Thoroddsen læknir kom nafna sínum til varnar og taldi í bréfi til Jóns Magnússonar, dómsmálaráðherra, að um mannréttindabrot væri að ræða. Að mati Guðmundar læknis væru íslensk lög og viðhorf í þessu efni úrelt og gamaldags miðað við nágrannalöndin. Guðmundur glímukappi hlaut að lokum uppreist æru með konungsbréfi Kristjáns X í ágúst 1935.

Ólympíuleikasögu Guðmundar var hins vegar alls ekki lokið. Árið 1948 var hann hluti íslenska ólympíuliðsins í London. Nú sem nuddari. Hans síðasta verk í ellinni var að semja kennslubók í glímu og taka þátt í því að endurskoða íslenskar glímureglur.

„Guðmundur Sigurjónsson lést í Reykjavík 14. janúar 1967. Haldin var kveðjuathöfn yfir honum þar, en fimm mánuðum síðar, 14. júní, var hann jarðsunginn frá Reykjahlíðarkirkju við Mývatn og grafinn í reit fjölskyldu sinnar. Margir urðu til að minnast hans í blöðum. Rifjaðar voru upp minningar um ljúfan en einbeittan leiðbeinanda, orðheldinn og tryggan félaga sem aldrei lagði illt til nokkurs manns. Á auðmýkingu hans veturinn 1924 var hvergi minnst. Sagt er að þegar Guðmundur fann dauðann nálgast hafi hann mælt svo fyrir að hann skyldi ekki grafinn fyrr en að sumri – svo fuglarnir fengju að syngja yfir honum. Hvort rétt er eftir haft skal ósagt látið, en svo mikið er víst að þannig kusu Mývetningar að minnast hans: Hann er sá eini af sveitungum þeirra sem beðið hefur sérstaklega um Fuglakórinn við útförina sína.“

Stuðst við grein eftir Þorvald Kristinsson, bókmennta- og kynjafræðing, www.samkynhneigd.is/pistlar/320-saga-gudmundar-glimukappa-glaepurinn-gegn-natturulegu-edli