Fara í efni
Menning

H-dagurinn á Akureyri og einkennislag dagsins

Jæja, klukkan er að nálgast 7, gæti Gísli Ólafsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, verið að hugsa þegar hann lítur á armbandsúr sitt árla morguns sunnudaginn 26. maí 1968. Í bílnum situr Stefán Stefánsson bæjarverkfræðingur. Myndir: Minjasafnið á Akureyri

SÖFNIN OKKAR – 64

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

26. maí árið 1968 hefur verið nefndur H-dagurinn en þá var skipt úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi. Þessi sögufrægi dagur var vel skipulagður og allt gekk nokkuð þrautalaust fyrir sig. Aðfaranótt 26. maí var vegum lokað milli klukkan 03:00 og 06:00. Þá var Vegagerðin á fullu við að leggja lokahönd á skiptinguna sem átti að taka gildi klukkan 07:00 fyrir almenning. Vegagerðin þurfti til dæmis að víxla öllum umferðaskiltum og þurfti því að hafa hraðar hendur. Mikið var rætt um málið í fjölmiðlum mánuðina á undan en aðgerðin var nokkuð umdeild, sem var þó að endingu samþykkt. Hugmyndin var einkum að auka við umferðaröryggi. Þá höfðu bæði Bandaríkin og flestar Evrópuþjóðir tekið upp hægri umferð og ferðamenn óvanir þeirri vinstri.

Glerárgatan snemma sunnudagsmorguns 26. maí 1968. Stefán Stefánsson bæjarverkfræðingur á fremsta bílnum, A 1650. Sjallinn fyrir miðri mynd í fjarska, til útskýringar á skiltinu þar var útibú Iðnaðarbankans á jarðhæðinni. Húsin fjærst á myndinni, austan Ráðhússins, voru rifin fyrir margt löngu svo og húsaröð hægra megin, þegar Glerárgatan var breikkuð.

Líkt og aðrir bæir á Íslandi tók Akureyri virkan þátt í viðburðinum og um klukkan 07:00 var hægri umferð formlega tekin við í bænum sem og annars staðar. Þeir fyrstu sem óku á Akureyri eftir breytingu voru þeir Gísli Ólafsson yfirlögregluþjónn á Akureyri og Stefán Stefánsson bæjarverkfræðingur. Þetta var um klukkan 06:00 og keyrðu þeir saman í bíl eftir Glerárgötu. Þeir keyrðu fyrst á vinstri akrein en beygðu síðan yfir á þá hægri. Var þessi akreinaskipting söguleg enda markaði hún upphaf hægri umferðar á Akureyri. Fljótlega fylltist bærinn af bílum og voru gangbrautaverðir að störfum fram eftir degi við fjölfarin gatnamót og leiðbeindu fólki í umferðinni. Þeir báru allir háa hvíta hanska sem einkenndi þá.

„Kaupfélagshornið“ á H-daginn – mót Kaupvangsstrætis og Hafnarstrætis.

Nokkur norðlensk fyrirtæki nýttu sér daginn og aðdraganda hans til þess að auglýsa sig og þjónustu sína í fjölmiðlum. Til dæmis auglýsti Véladeild KEA í Degi um þremur vikum áður að þeir ættu allan ljósabúnað sem til þyrfti fyrir hægri umferð. Fataverksmiðjan Hekla nýtti einnig tækifærið og auglýsti í sama blaði þremur dögum eftir breytingu að þeir seldu H-buxur sem ætti að minna æskufólkið á hægri umferð!

„Kaupfélagshornið“ á H-daginn frá öðru sjónarhorni; hér er horft til austurs, ljósmyndarinn stendur á planinu við Hótel KEA. Tískuverslunin Regína var í húsinu lengst til hægri þar sem veitingastaðurinn Bautinn hefur verið síðan 1971. Afgreiðsla Eimskipafjelags Íslands var í húsinu fjærst fyrir miðri mynd, það var rifið fyrir margt löngu.

H-dagurinn á Íslandi þótti raunar svo merkilegur að ákveðið var að efna til lagasamkeppni um einkennislag dagsins. Kristján frá Djúpalæk var fenginn til þess að semja texta. Sex tillögur bárust og voru lögin hljóðrituð, en Raggi Bjarna söng lögin með hljómsveit sinni. Öll lögin hétu einfaldlega „H-lagið.“ Það „H-lag“ sem bar sigur úr býtum samdi Þorvaldur Halldórsson. Bæði Kristján og Þorvaldur voru Akureyringum vel kunnugir. Kristján bjó á Akureyri og var nú þegar orðinn þjóðþekkt skáld fyrir ljóð sín og sönglagatexta. Þorvaldur bjó á þessum tíma líka á Akureyri og hafði um nokkurt skeið spilað og sungið með hljómsveit Ingimars Eydal. Söng hann meðal annars hið vinsæla lag „Á sjó“ með hljómsveit Ingimars.

Kristján frá Djúpalæk sem samdi texta við H-lagið.

Fyrsta erindi úr texta Kristjáns frá Djúpalæk

Bókstaf þann sem heitir H
hafa skal í minni.
Merkið víða munu sjá
menn á vegferð sinni.
Boðskap flytja okkur á
öllum þetta bláa H
Er þú ekur veginn –
aktu hægra megin.