Fara í efni
Menning

Elísabetarhagi – Hver var Elísabet?

SÖFNIN OKKAR – 58

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Götur í Hagahverfi, nýjasta hverfi Akureyri, eru kenndar við kunna látna Akureyringa, fólk „sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins,“ eins og nafnanefnd bæjarins orðaði það á sínum tíma. Sagt hefur verið frá nokkrum götum á þessum vettvangi; nú er komið að Elísabetarhaga.

Gatan er nefnd eftir Elísabetu Sigríði Geirmundsdóttir, sem gjarnan var kölluð Listakonan í Fjörunni. Elísabet, sem gekk undir nafninu Beta Geirs fæddist í „Geirshúsinu“ Aðastræti 36 þann 15. febrúar 1915 og þar í Fjörunni bjó hún og starfaði.

Hún giftist Ágústi Ásgrímssyni ung að árum og þau eignuðust þrjú börn. Þegar Pollurinn varð ísilagður á veturna fóru þau oft saman að dansa á skautum og þóttu eftirminnilegt skautapar, frísk, orkumikil og glæsileg.

Saman reistu hjónin húsið Aðalstræti 70 eftir teikningu Elísabetar og er garðurinn umhverfis húsið prýddur ýmsum myndverkum eftir hana.

Árið 1953 hlutu Elísabet og Ágúst viðurkenningu fyrir skrúðgarð sinn við Aðalstræti 70.

Elísabet var fjölhæf alþýðulistakona sem er þekktust fyrir höggmyndir þó hún gerði einnig málverk og teikningar, myndskreytti bækur, hannaði hús og merki og samdi ljóð og lög. Milli húsverka, barneigna og annarra skyldustarfa vann hún list sína af miklum krafti og hugmyndaauðgi. Hún gerði listaverk úr hverju því efni henni sem henni barst í hendur, sumu forgengilegu eins og snjó og hún sótti sér sjálf leir upp í Hamraborgir sunnan Akureyrar til að nota við listsköpunina. Hún var að mestu sjálfmenntuð í list sinni en fékk tilsögn í gegnum norskan bréfskóla, auk nokkurra námskeiða hér á Akureyri.

35 ára gömul fór Elísabet að glíma við heilaæxli sem varð til þess að hún missti sjón á öðru auga. Elísabet „Beta Geirs“ Geirmundsdóttir lést 9. apríl 1959, aðeins 44 ára að aldri.

Elísabet Geirmundsdóttir, Fjaran, án ártals. Myndin er á sýningu Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar, sem stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Elísabet Geirmundsdóttir hefur áður komið við sögu á Akureyri.net. Smellið á myndirnar til að sjá þær umfjallanir.