Hver var Nonni? Hvers vegna Nonnahagi?
![](/static/news/lg/nonni-adal.jpg)
SÖFNIN OKKAR – 60
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Götur í nýjasta hverfi Akureyrar, Hagahverfi, eru kenndar við fólk eins og bæjarbúar þekkja og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Nafnanefnd bæjarins lagði það til á sínum tíma, og hafði að leiðarljósi að um væri að ræða kunna látna Akureyringa, sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins.
Ein gatan er Nonnahagi – kennd við Jón Stefán Sveinsson sem fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 16. nóvember 1857.
Jón, eða Nonna, þekkja margir í gegnum bækurnar um þá bræður Nonna og Manna, en bækurnar skrifaði Nonni sjálfur og urðu þær 12 talsins.
Líf Nonna var enginn dans á rósum. Foreldrar hans, Sveinn og Sigríður eignuðust átta börn. En árið 1860 létust þrjú þeirra úr barnaveiki. 1865 flyst fjölskyldan til Akureyrar og sest að í húsi sem þá hét Pálshús. Í dag er húsið þekkt sem Nonnahús og er við Aðalstræti 54.
Árið 1869 lést Sveinn faðir Nonna úr sullaveiki, eftir stendur Sigríður ein með öll börnin, sem fór svo þannig að hún þurfti að gefa þau öll frá sér nema Ármann (Manna).
Safngripur vikunnar er þetta handskrifaða bréf frá Nonna til skrifstofustjóra Alþingis. Bréfið er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landakot 20. júlí 1930.
Kæri landi!
Bestu þakkir fyrir kærkomnu sendinguna (alþingismannatal) – og líka fyrir síðast.
Með vinsemd og virðingu
Yðar einlægur
Jón Sveinsson
Ári seinna bauðst franskur aðalsmaður til að kosta Nonna og annan íslenskan dreng til náms. Í lok ágústmánaðar 1870 hélt hann til Frakklands, en vegna ástandsins í Evrópu þá dvaldi hann í eitt ár í Danmörku. Þar tók hann upp kaþólska trú. Þegar hann svo komst loks til Frakklands stundaði hann nám í latínuskóla þar og gekk í jesúítaregluna.
Nonni kom einungis tvisvar til Íslands eftir þetta, en var alltaf heillaður af landinu og þá sérstaklega Eyjafirðinum. 1930 þáði hann boð ríkisstjórnarinnar og kom á Alþingishátíðina og í sömu ferð var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar.
Nonni var víðförull maður, eftir að hann lauk námi við latínuskólann, stundaði hann háskólanám í Frakklandi, Belgíu og Hollandi. Að því loknu hélt hann til Danmerkur og var kennari við menntaskóla þar. Síðar hélt hann til Englands og lagði stund á guðfræðinám og tók prestvígslu áður en hann sneri aftur til Danmerkur og hélt áfram kennslustörfum við sama skóla og áður. 1912 hætti hann kennslu og flytur frá Danmörku, þá dvelur hann í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi og byrjar að skrifa bækurnar um Nonna og Manna, auk þess að sinna öðrum ritstörfum.
Eftir að hafa lagt upp í heimsreisu og dvalið í Japan í eitt og hálft ár settist Nonni að í Hollandi. Í seinni heimsstyrjöldinni hraktist hann til Þýskalands og dvaldi þar seinustu tvö ár lífsins.
Nonni lét lífið í loftvarnarbyrgi í Köln þann 16. október 1944. Hann er grafinn í Köln.