Fara í efni
Mannlíf

„Stelpur voru aldrei í fótbolta á þessum árum“

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXIX

Þessi dásamlega gamla íþróttamynd vikunnar er af handboltakonum í KA fyrir miðja síðustu öld. Sá sem þetta skrifar vissi mætavel hvaða íþróttagrein stelpurnar á myndinni stunduðu en vegna þess hve boltinn er stór var konan sem á honum heldur spurð í gamni hvort þær hefðu verið að spila fótbolta. Svo var ekki.

„Nei, nei – stelpur voru aldrei í fótbolta á þessum árum. Það kom aldrei til greina,“ sagði konan, Björg heitin Finnbogadóttir, Bella Finnboga, þegar ritstjóri Akureyri.net heimsótti hana fyrir nokkrum árum, skoðaði gamlar myndir og hlýddi á skemmtilegar sögur úr akureyrsku íþróttalífi fyrri ára.

Bella, sem lést í maí árið 2023, tveimur dögum áður en hún hefði orðið 95 ára, taldi að myndin væri tekin 1941 eða 1942, þegar hún var 13 eða 14 ára. Hún nafngreindi stelpurnar og sagði svo frá:

Frá vinstri: Ása Ásgrímsdóttir, systir hennar Hervör Ásgrímsdóttir (eiginkona Gísla Jónssonar menntaskólakennara, sem dó ung, aðeins 42 ára), Þorgerður Septíma Árnadóttir, Björg Finnbogadóttir, Herdís Helgadóttir (kennara, sem varð eiginkona sr. Ragnars Fjalars Lárussonar), Árnína Guðlaugsdóttir og Gréta Ólafsdóttir (ég held að hún hafi verið fósturdóttir Óla klæðskera hjá Gefjun – þau bjuggu í Sniðgötu).

Myndin er tekin ofarlega á norðanverðri Oddeyri, þar sem bæði KA og Þór voru með íþróttavelli á sínum tíma.