Fara í efni
Mannlíf

Sigurrós vann gull á Ólympíumóti fatlaðra

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLII

Ólympíumót fatlaðra er nýhafið í París og af því tilefni er upplagt að rifja upp að einn Akureyringur hefur unnið til gullverðlauna á þeim vettvangi. Það var Sigurrós Karlsdóttir á Ólympíumóti fatlaðra árið 1980 í Hollandi og varð þar með fyrst Íslendinga til að afreka það. Þetta var í fyrsta skipti sem Íslendingar sendu keppendur á slíkt mót. 

Tveir Akureyringar kepptu á leikunum í Hollandi, sundfólkið Sigurrós og Snæbjörn Þórðarson. Sigurrós sigraði í 50 metra bringusundi og var tími hennar heimsmet í greininni í hennar fötlunarflokki.

Gamla íþróttamyndin í dag er úr safni Akureyrarblaðsins Íslendings. Hún var tekin eftir Íslandsmót fatlaðra sem haldið var í Vestmannaeyjum ári eftir Ólympíumótið í Hollandi. Á myndinni eru Ólympíufararnir Snæbjörn Þórðarson, lengst til vinstri, og Sigurrós Karlsdóttir við hlið hans. Næstur er Rúnar Þór Björnsson og lengst til hægri Hafdís Gunnarsdóttir.

Fyrsta íþróttafélag fatlaðra á Akureyri, Akur, var stofnað í árslok 1974 en fyrsta félag landsins, Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, var sett á laggirnar fyrr sama ár. Íþróttafélagið Eik var síðan stofnað á Akureyri 1978.