Fara í efni
Mannlíf

Leikfimiflokkur Þórs og Tryggvi Þorsteinsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLV

Um þessar mundir eru 80 ár síðan íþróttahúsið við Laugargötu á Akureyri var tekið í notkun. Þetta var rifjað upp á heimasíðu Íþróttafélagsins Þórs fyrir fáeinum dögum og greint frá því að fyrsta æfingin í nýja húsinu hafi farið fram fimmtudaginn 10. febrúar 1944. Húsið var óupphitað „en leikfimiflokkur Þórs undir stjórn Tryggva Þorsteinssonar, fékk sérstakt leyfi til þessa,“ segir á heimasíðu Þórs.

Af þessu tilefni er hér birt mynd af leikfimiflokki Þórs og þjálfaranum Tryggva, þeim kunna skólastjóra og skátahöfðingja. Sumir á myndinni tóku þátt í fyrstu æfingunni skv. greininni sem nefnd var, ekki verða gefin upp nöfn að þessu sinni en lesendur hvattir til þess að senda upplýsingar eða tillögur þar að lútandi á netfangið skapti@akureyri.net og þau verða birt við tækifæri. 

Myndina fékk ritstjóri Akureyri.net fyrir nokkrum árum hjá Ingibjörgu R. Magnúsdóttur hjúkrunarkonu, dóttur Magnúsar Péturssonar kennara sem stýrði Leikfimifélagi Akureyrar frá 1922 til 1935 og taldi Ingibjörg, sem nú er látin, að myndin sé tekin veturinn 1940 til 1941. 

Í greininni á heimasíðu Þórs sem nefnd var í upphafi segir meðal annars:

Í ár eru liðin 80 ár frá því að íþróttahúsið við Laugargötu var tekið í notkun og þar með varð langþráður draumur íþróttamanna á Akureyri loks að veruleika. Íþróttafélögin á Akureyri höfðu árum saman barist fyrir bættri aðstöðu í bænum og þá sérstaklega fyrir íþróttahúsi. Félögin stóðu fyrir íþróttamótum og skemmtunum lengi vel og létu ágóðan gjarnan renna í íþróttahússjóð.

Þórsarar þjófstörtuðu. Já Þórsarar þjófstörtuðu fimmtudaginn 10. febrúar 1944 en þá var haldin fyrsta æfingin í hinu nýja íþróttahúsi, sem var að vísu óupphitað, en leikfimiflokkur Þórs undir stjórn Tryggva Þorsteinssonar, fékk sérstakt leyfi til þessa. Byggingu hússins var þó hvergi nærri lokið. Alls tóku 17 Þórsarar þátt í þessari æfingu þeir voru; Jón Kristinsson, Tómas Árnason, Hugi Ásgrímsson, Júlíus B. Magnússon, Ragnar Emilsson, Bjarni Magnússon, Magnús Guðmundsson, Albert Sigurðsson, Gunnar Óskarsson, Ellert Finnbogason, Finnur Björnsson, Jón Aspar, Ólafur Gunnarsson, Jónas Jónsson, Svan Friðgeirsson, Sigurður Samúelsson og Hreinn Óskarsson.

Nú 80 árum síðar er Íþróttafélagið Þór með umtalsverða starfsemi í húsinu en þar hafa pílu- og hnefaleikadeildir sýna aðstöðu.

Smellið hér til að sjá greinina á Þórssíðunni: Þórsarar þjófstörtuðu