Fara í efni
Mannlíf

Sólnes slær á gamla nýræktarvellinum

Mynd: Gunnlaugur P. Kristinsson/Minjsafnið á Akureyri

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXV

Akureyrarmótið í golfi stendur nú sem hæst á Jaðarsvelli og því tilvalið að dusta rykið af gamalli mynd af akureyrskum kylfingum og birta í þessum vikulega dálki á Akureyri.net, gömlu íþróttamyndinni. 

Fyrsti völlur Golfklúbbs Akureyrar var á Gleráreyrum frá 1935-46, á svæðinu þar sem Slippstöðin hreiðraði síðar um sig. Það var sex holu völlur en klúbburinn eignaðist níu holu völl eftir að keypt var jörðin Nýrækt, sunnan og ofan við Menntaskólann. Var gjarnan talað um nýræktarvöllinn. Þar stunduðu bæjarbúar golfíþróttina allt þar til 1971 að starfsemin fluttist að Jaðri.

Mynd dagsins er tekin á nýræktarvellinum. Það er Jón G. Sólnes, lengi bæjarfulltrúi, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri og alþingismaður, sem slær en með honum fylgast, frá vinstri, Ragnar Steinbergsson, Ingólfur Þormóðsson og Jóhann Þorkelsson. Jón ber í húsið Sólvang. Fjær til vinstri sér á þak Menntaskólans.

Jón G. Sólnes var mjög áhugasamur golfleikari en kunnugir taka sumir þannig til orða að stíllinn hafi ekki verið hefðbundinn! Sonur Jóns, Gunnar Sólnes, var hins vegar mjög góður og varð tvisvar Íslandsmeistari í golfi, fyrst 1961 og aftur 1967.

Rifja má upp að fyrsta gamla íþróttamyndin sem Akureyri.net birti, í nóvember 2023, var af einum þremenninganna sem fylgast með Sólnes á myndinni að ofan, Jóhanni Þorkelssyni héraðslækni þar sem hann púttaði á nýræktarvellinum. Smellið hér til að sjá þá mynd.