Fara í efni
Mannlíf

Sérprentuð veggspjöld með verki Karls til sölu

Kalli við veggspjöldin við sýningarlok í Ketilhúsinu á sunnudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Aðstandendur heimildamyndarinnar sem unnið er að um listamanninn Karl Guðmundsson hafa látið sérprenta listveggspjöld í fjáröflunarskyni. Veggspjöldin eru þrenns konar, öll hluti af stærsta verki sýningarinnar, sem ber heitið Dansandi línur, rétt eins og heimildamyndin.

„Við vorum með alls kyns hugmyndir um hópfjármögnun, en ákváðum svo að fara út í að gera þessi veggpjöld og vanda mjög til framleiðslu þeirra,“ segir Vilborg Einarsdóttir framleiðandi og handritshöfundur myndarinnar í samtali við Akureyri.net. „Þau eru númeruð, upplagið lítið og hvert þeirra í raun einstakt listaverk sem fólk getur eignast og um leið stutt okkur í gerð þessarar einstöku myndar.“

Hér norðan heiða verða verkin til sölu hjá Ingibjörgu Auðunsdóttur (860 4958) og í Listasafninu á Akureyri, en í Reykjavík hjá Vilborgu Einarsdóttur (866 7192).

Sem fyrr segir er upplagið takmarkað. Verkin eru afgreidd í hólkum, eitt veggspjald kostar 15.000 krónur en þrjú saman í setti eru seld á 30.000 krónur.