Fara í efni
Mannlíf

Líflína – Kalli þakkar SAk með listaverki

„Líflína“ við innganginn að gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri. Kalli ásamt móður sinni, Ingibjörgu Auðunsdóttur, til vinstri, og Rósu Kristínu Júlíusdóttir, sem unnið hefur með honum að listsköpun síðan Kalli var barnungur. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Karl Guðmundsson færði Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) listaverk að gjöf á dögunum sem þakklætisvott því hann segir starfsfólk gjörgæsludeildar sjúkrahússins hafa bjargað lífi sínu, ekki bara einu sinni heldur nokkrum sinnum.

Verkinu, sem listamaðurinn kallar Líflína, var komið fyrir framan við innganginn að gjörgæsludeildinni.

Unnið er að gerð heimildarmyndar, Dansandi línur, um Kalla og þegar gjöfin var afhent voru Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri og Jón Karl Helgason kvikmyndatökumaður vitaskuld viðstaddir ásamt samstarfsfólki, Vilborgu Einarsdóttur, öðrum framleiðanda myndarinnar, og fleirum sem að vinnunni koma.

Frá vinstri: Stefán Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður Kalla, listakonurnar Arna Valsdóttir og Rósa Kristín Júlíusdóttir, Karl Guðmundsson, Ingibjörg Auðunsdóttir móðir Kalla og hægri megin eru fulltrúar SAk: Ásbjörn Blöndal, Hildigunnur Svavarsdóttir, Brynja Dröfn Tryggvadóttir, Helgi Þór Leifsson og Þóroddur Ingvarsson.

Karl er mál- og hreyfihamlaður en hóf ungur að stunda myndlist í samstarfi við Rósu Kristínu Júlíusdóttur myndlistarkonu og kennara, og hefur sýnt víða í áranna rás.

Ingibjörg Auðunsdóttir ávarpaði viðstadda við afhendingu gjafarinnar. „Ég hlaut þann heiður að ávarpa ykkur fyrir hönd Karls Guðmundssonar, myndlistarmanns – Kalla sonar míns – sem hingað er kominn til að færa Sjúkrahúsinu á Akureyri að gjöf, listaverk sem hann málaði sérstaklega fyrir SAk og það góða starfsfólk sem hér er,“ sagði Ingibjörg og rifjaði upp söguna um tilurð verksins.

„Árið 2017 gekkst Kalli undir umfangsmikla og áhættusama skurðaðgerð á hrygg. Aðgerðin var á Landspítalanum, Kalli kom norður í sjúkraflugi og fór beint á gjörgæsludeild SAk,“ sagði hún. 

Listaverkið Líflína við innganginn að gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Stærsti sigurinn

Ingibjörg hélt áfram: „Þar hófst þriggja ára glíma við síendurtekin, alvarleg og oft lífsógnandi veikindi. Innlagnir voru margar, oft vikum, jafnvel mánuðum saman. Útlitið var ekki alltaf bjart og oft vorum við hrædd. Kalli segir sinn stærsti sigur í lífinu einfaldlega vera að hafa lifað af þennan þriggja ára lífsháska. Hann fullyrðir að starfsfólk gjörgæsludeildar SAK hafi bjargað lífi sínu. Ekki bara einu sinni, heldur nokkrum sinnum. Verkið heitir Líflína og nafnið er ekki tilviljun. Það er táknrænt eins og línan sem Kalli málar í verkinu. Hún er tákn um lífgjöf; skurðinn á bakinu, hrygginn sem varð beinn og þá hjúkrun og lækningu hér á sjúkrahúsinu sem gerði Kalla kleift að lifa af.“

Síðan tilkynnti Ingibjörg að Kalli ætlaði að segja eitt að lokum, og hann blissaði sem kallað er, þannig að tölvurödd sagði:

Þið mikið mikilvæg ég veikur, takk!

Líflína, listaverkið sem Karl Guðmundsson færði Sjúkrahúsinu að gjöf sem þakklætisvott.


Takk Kalli! Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, smellir kossi á kinn listamannsins.

Kalli og Ingibjörg móðir hans virða listaverkið fyrir sér.

Ingibjörg Auðunsdóttir, móðir Kalla, listakonan Arna Valsdóttir sem hefur unnið mikið honum, Kalli, og Rósa Kristín Júlíusdóttir sem hóf að vinna með Kalla að listsköpun þegar hann var fimm ára.