Fara í efni
Mannlíf

Draumur Kalla rætist á EM – MYNDIR

Karl Guðmundsson, Kalli, fylgist með leik Íslands og Portúgals á EM í Búdapest í gær. Til hægri er Jón Karl Helgason, kvikmyndatökumaður sem vinnur með Friðriki Þór Friðrikssyni að heimildarmynd um Kalla.

Karl Guðmundsson hefur gríðarlegan áhuga á handbolta og hefur lengi fylgst grannt með íslenska landsliðinu – Strákunum okkar. Gamall draumur hans rætist þessa dagana; Kalli er með hópi fólks í Búdapest í Ungverjalandi þar sem hann sér alla þrjá leiki Íslands í riðlakeppni Evrópumótsins. Mótið byrjaði eins og best verður á kosið í gær, þegar Ísland vann Portúgal, og til að kóróna frábæran dag var Kalli valinn stuðningsmaður dagsins af Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.

Kalli, sem er bæði mál- og hreyfihamlaður, er kunnur fyrir myndlist sína og nú stendur einmitt yfir einkasýning hans í Listasafninu á Akureyri. Unnið er að gerð heimildarmyndar um Kalla, eins og hér hefur áður verið greint frá, leikstjóri er enginn annar en Friðrik Þór Friðriksson og hann er vitaskuld með í för ásamt Jóni Karli Helgasyni, kvikmyndatökumanni, og fleira samstarfsfólki.

„Við fengum að kaupa sæti í leiguvélinni sem flutti landsliðið til Búdapest,“ segir Vilborg Einarsdóttir, annar framleiðenda myndarinnar, í samtali við Akureyri.net í dag. Þau eru 11 saman, kvikmyndagerðarfólk, aðstoðarmenn Kalla og móðir hans, Ingibjörg Auðunsdóttir.

Vilborg á ekki orð til að lýsa ánægju með starfsmenn Handknattleikssambands Íslands og EHF. „Það er alveg dásamlegt hve HSÍ og EHF hafa hjálpað okkur. Kjartan Vídó hjá HSÍ hefur gert miklu meira fyrir okkur en okkur datt í hug að biðja um og fjölmiðladeild EHF hefur líka borið okkur á höndum sér. Kjartan og starfsfólk EHF  eiga gríðarlegar þakkir skilið,“ sagði Vilborg í dag. „Stuðningssveit landsliðsins, Sérsveitin, er líka algjör dásemd og gerir allt fyrir okkur.“

Sjón er sögu ríkari. Hér að neðan eru myndir frá því í gær.

Kalli, neðst til vinstri, ásamt hluta Sérsveitarinnar, stuðningshóps landsliðsins, eftir sigurinn á Portúgal í Búdapest í gær.

Kalli og Vilborg Einarsdóttir, annar framleiðandi heimildamyndarinnar.

Kalli og Kári Þorleifsson, aðstoðarmaður hans, fylgjast með leik Íslands og Portúgals í gær.

Kári Þorleifsson, Kalli og Jón Karl Helgason, myndatökumaður.

Til að kóróna eftirminnilegan dag Kalla í gær, þegar hann horfði á leik Íslands og Portúgals, var hann valinn stuðningsmaður dagsins af Handknattleikssambandi Evrópu, EHF.