Séra Sindri: Gleði og friðarjól í uppáhaldi
JÓLALAGIÐ MITT
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju
Haldið er upp á 30 ára vígsluafmæli Glerárkirkju um helgina. Í gær var áhugavert málþing í safnaðarheimilinu og hátíðarmessa er í kirkjunni í dag klukkan 11.00. Í jóladagatali dagsins segir sóknarpresturinn frá jólalögunum sínum.
1. Gleði og friðarjól er uppáhalds jólalagið. Maggi Eiríks vefur texta með góðum jólaboðskap við þessa fallegu laglínu og útkoman í flutningi Pálma Gunnars er bara klassík sem hefur fylgt mér frá því ég var barn. Smellið hér til að hlusta.
2. Ég hlusta annars ekki mikið á stök jólalög, læt frekar jólaplötur renna í gegn sem heild. Ein af plötunum sem rúllar hjá mér fyrir hver jól er Songs for Christmas með Sufjan Stevens. Þar held ég mikið upp á O come, o come Emmanuel í þessari mildu folk útgáfu. Kór Glerárkirkju syngur þennan sálm reyndar við afmælismessuna í dag í útgáfu sem er ekki síður falleg. Smellið hér til að hlusta á Sufjan Stevens.
3. Vetrarsálmur er þýðing Grétu Salóme á norska sálminum Nordnorsk julesalme. Það er smá tregi í lagi og texta, en samt sterkur vonarboðskapur. Jólin eru hátíð sem reynist mörgum þung og þarna finnst mér vera mikilvægt jólalag sem umfaðmar það að jólunum geta fylgt allskonar tilfinningar.
Ég mæli með útgáfunni með Hildu Örvars, en ekki síður með Oslo Gospel Choir ef fólk leggur í að hlusta á norsku útgáfuna. Smellið hér til að hlusta á Hildu og hér á Oslo Gospel Choir.