Tek jólalaganóturnar gjarnan fram í október
JÓLALAGIÐ MITT
Reynir Bjarnar Eiríksson, verkfræðingur
Það er útilokað að velja bara eitt jólalag!
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég er spurður er alltaf Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs. Dásamlegt lag og algjörlega ómissandi á aðventunni. Fram kom í þætti Gísla Marteins á dögunum að þetta var fyrsta jólalagið sem leikið var í Ríkisútvarpinu á sínum tíma og það kemur mér ekki á óvart. Ég spila reglulega á píanó mér til gamans og tek jólanóturnar yfirleitt fram snemma, gjarnan um miðjan október, vegna þess hve mér þykir jólatónlist falleg og Hin fyrstu jól er það lag sem ég spila hvað oftast. Smellið hér til að hlusta á lagið í flutningi Páls Óskars Hjálmtýssonar og Moniku Abendroth.
Lagið Fimm mínútur í jól með hljómsveitinni Lón er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Söngvarinn frábæri Valdimar Guðmundsson fer fyrir sveitinni og akureyrska söngkonan Rakel Sigurðardóttir, sem mér finnst stórkostleg, syngur með honum í þessu lagi. Þetta er titillag nýrrar plötu hljómsveitarinnar og á vel við núna, enda jólin handan við hornið. Smellið hér til að hlusta
Ég finn alltaf fyrir miklum jólafriði þegar ég heyri lagið O holy night – Ó helga nótt. Það er mjög fallegt í flutningi Mahalia Jackson. Smellið hér til að hlusta.
Síðast en ekki síst langar mig að nefna Það aldin út er sprungið sem er afskaplega hátíðlegt og fallegt. Þegar ég hlusta á það í jólamessunni klukkan sex á aðfangadagskvöld eru jólin komin fyrir mér. Smellið hér til að hlusta á Tjarnarkvartettinn flytja lagið.