Fara í efni
Mannlíf

Sælt er að gefa og þiggja – mat og skáp

Frísskápagleði! Frá vinstri: Gestur Davíðsson undirmeistari Ránar, Oddfellowstúku nr. 25, Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir verkefnastjóri á Amtsbókasafninu, Gunnar Gíslason yfirmeistari Ránar og Þórður Friðriksson, formaður líknarsjóðsnefndar Ránar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Oddfellowstúkan Rán á Akureyri afhenti í dag formlega tvo kæliskápa – frísskápa – sem standa við Amtsbókasafnið. Skápur var fyrst settur þar upp fyrir tveimur árum með það að markmiði að sporna við matarsóun og verkefnið hefur gengið með eindæmum vel, segir Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu.

Frísskáparnir eru kallaðir svo þar sem um ísskápa er að ræða og þangað má hver sem er ná sér í mat án þess að greiða fyrir – maturinn er frír.

Skáparnir njóta mikilla vinsælda, bæði hjá þeim sem gefa og þiggja. „Það kemur mikill matur í skápana og hann fer fljótt,“ sagði Hrönn við Akureyri.net í dag.

Margir koma færandi hendi. „Verslanir Samkaupa gefa til dæmis mat, það er hluti af umhverfisverndarstefnu fyrirtækisins, til að sporna við matarsóun“ segir Hrönn. „Hópur sjálfboðaliða er í lokuðum spjallhópi á Facebook síðu Frísskápsins. Þar tilkynna verslunarstjórar hjá Samkaupum hvenær má koma til þeirra og sækja mat, sem sjálfboðaliðarnir koma síðan með hingað í skápana.“

Hrönn Björgvinsdóttir verkefnastjóri á Amtsbókasafninu og Gunnar Gíslason yfirmeistari Oddfellowreglu nr. 25, Ránar.

Margir fleiri koma með mat í skápana, bæði einstaklingar og fyrirtæki. „Það er gaman hve verslanir og mötuneyti eru dugleg að skilja eftir mat í skápunum, eftir hádegi á föstudögum er til dæmis oft komið með afganga úr mötuneytum.“ Þar segir Hrönn um að ræða mat af ýmsu tagi, jafnvel súpur í lítratali.

Fyrir nokkrum mánuðum barst bræðrum í Rán, Oddfellowstúku nr. 25, til eyrna að frísskáparnir tveir við Amtsbókasafnið væru farnir að láta á sjá og þá kviknaði hugmynd um að færa verkefninu nýjan skáp að gjöf. Svo fór að skáparnir urðu tveir, annar var settur upp í lok júní og hinn fyrir skömmu. Smíðað hefur verið myndarlegt skýli utan um skápana og þeir voru síðan formlega afhentir í dag sem fyrr segir.

Fulltrúar Ránar sögðu í dag að verkefnið félli mjög vel að því sem Oddfellow stendur fyrir, að láta gott af sér leiða, enda afar mikilvægt verkefni að sporna við matarsóun. Hrönn lýsti mikilli ánægju með framtak Oddfellowbræðra í stúkunni Rán og færði þeim innilegar þakkir fyrir gjöfina.

Tekið var fram í dag, og raunar sérstök áhersla lögð á, að öllum er heimilt að ná sér í mat í frísskápana við bókasafnið.

Frísskápurinn á Facebook