Fara í efni
Mannlíf

Lárubækur Birgittu henta öllum aldri

AF BÓKUM – 5

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Eydís Stefanía Kristjánsdóttir_ _ _

Mig langar að mæla með Láru bókunum eftir Birgittu Haukdal. Bækurnar henta öllum aldri og hef ég sjálf lesið þær allar nokkrum sinnum bæði fyrir börnin mín og á sögustundum á safninu.
 
Bækurnar fjalla um unga stelpu sem heitir Lára og uppáhalds bangsann hennar hann Ljónsa. Lára er ósköp venjuleg stelpa sem býr með fjölskyldunni sinni og á góða vini. Í bókunum tekst hún á við allskonar hversdaglega hluti eins og að fara til læknis, læra að lesa og hjóla, hún fer á fótboltamót og í sund, missir tönn, bakar og æfir á hljóðfæri.
 
 
Þetta eru mjög vinsælar bækur hjá börnum í dag og það er held ég vegna þess að flest geta þau séð sjálfa sig í því sem Lára er að gera. Þau geta mátað sig inn í söguna og séð sjálft sig vera í hlutverki Láru í bókunum. Þau ná tengingu við bækurnar og geta því lesið þær aftur og aftur.
 
Þetta eru frábærar bækur fyrir foreldra og aðra til þess að lesa fyrir börnin sín, síðan geta börnin lesið þær sjálf þegar þau eru farin að lesa. Letrið í bókunum er gott og auðvelt til lestrar fyrir unga lestrarhesta.
 
Ég vil hvetja alla foreldra til að lesa fyrir börnin sín frá unga aldri. Að eiga notalega stund með börnunum sínum við lestur getur eflt tengslamyndun milli foreldra og barns og gert lestur að jákvæðri stund sem eflir áhuga barnsins á lestri.