Fara í efni
Mannlíf

Ekkert aldurshámark á ungmennabókum!

AF BÓKUM – 2

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir _ _ _

Ég mæli með tveimur splunkunýjum ungmennabókum úr jólabókaflóðinu, Kasia og Magdalena eftir Hildi Knútsdóttur, og NammiDagur eftir Bergrúnu Írisi og Simma. Það besta við ungmennabækur er að það er ekkert aldurshámark á þeim, svo öll sem eru ung í anda ættu að vera ófeimin við að lesa þær rétt eins og eins og bækur fyrir fullorðna.

Hildur Knútsdóttir er ein af mínum uppáhalds rithöfundum og hefur skrifað fjölmargar bækur bæði fyrir ungmenni og fullorðna. Flestar bækur hennar eru sveipaðar dulúð og í þeim gerist oft eitthvað sem erfitt er að útskýra.

Þessi bók fjallar um hina 17 ára Magdalenu sem er dóttir fíkils. Hún hefur alla ævi verið undir eftirliti barnaverndarnefndar og er í erfiðri stöðu þegar mamma hennar fellur á nýjan leik. Á hún að tilkynna eða hylma yfir með mömmu sinni og þrauka fram að 18 ára afmæli sínu? Sagan hefst á því að Magdalena situr alblóðug í yfirheyrslu hjá lögreglunni og ljóst er að tveir menn hafa látið lífið á heimili hennar. Við förum síðan nokkra mánuði aftur í tímann og fylgjum þeirri atburðarás sem leiðir okkur í yfirheyrsluherbergið.

Þetta er gríðarlega spennandi, myrk og grípandi saga um sjálfsbjargarviðleitni og hún hitti beint í mark hjá mér rétt eins og aðrar bækur Hildar.

NammiDagur eftir Bergrúni Írisi og Simma er líka myrk en þó af allt öðrum toga. Þetta er kolsvört og sprenghlægileg uppvakningasaga sem er alls ekki fyrir viðkvæma! Bókin er framhald af VeikindaDegi svo ég mæli hiklaust með að lesa þá bók fyrst.

Dagur hefur óvart smitað stelpuna sem hann er skotinn í af uppvakningavírus, sérsveitin skaut þau til bana eftir að þau gengu berserksgang í síðustu bók en það er ekki hægt að drepa þann sem þegar er dáinn. Dagur og Ylfa vakna því upp í líkhúsinu sjá þann eina kost í stöðunni að flýja í sumarbústað sem þau vita að stendur auður. Þau eru bara svo agalega svöng, er kannski allt í lagi að borða fólk sem er ekki góðar manneskjur? Og hvernig eiga tveir ástfangnir unglingar að drepa tímann alein í afskekktum bústað?

Sagan er hröð og einkennist af „splatter“ og vandræðalegum aðstæðum í bland. Í bókinni eru hrikalega flottar myndskreytingar eftir Simma, en ég ítreka aftur, ekki fyrir viðkvæma. Mæli innilega með fyrir hrollvekjuunnendur með svartan húmor.