Fara í efni
Mannlíf

Velkomin í klúbbinn sem enginn vill þó vera í

AF BÓKUM – 6

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _

Bókin Velkomin í sorgarklúbbinn – við erum hér með þér eftir Janine Kwoh fjallar um allan tilfinninga- og viðbragðaskalann sem fólk upplifir við missi og sorg.
 
Ekki dæma bókina eftir kápunni, hún kom að minnsta kosti mér á óvart. Bókin gæti litið út fyrir að vera barnabók en er það þó ekki.
 
Teikningar, skýringamyndir og þrautir í bókinni útskýra á léttan og skemmtilegan hátt ýmislegt sem fólki gæti fundist óeðlilegt í sorgarferli en er í raun og veru eðlileg sorgarviðbrögð. Það er engin rétt eða röng leið til að syrgja.
 
 
Bókin fjallar um hversu furðuleg sorg getur verið, ekki eins og sýnt er í bíómyndum. Hún er alls ekki línuleg og ef fólki líður vel í einn dag þýðir það ekki að það sé hætt að syrgja. Bókin fjallar líka um líkamlegu hliðar sorgarinnar, ekki bara þær andlegu.
 
Í sorgarferli getur verið gott að upplifa að fólk sé ekki eitt og lestur þessarar bókar getur veitt lesandanum huggun. Fólk í sorg ber sig stundum saman við aðra í sömu sporum en við tjáum sorg hvert og eitt með okkar hætti.
 
Bókin er ekki eingöngu fyrir syrgjendur, hún getur líka nýst fólki sem á ástvini, vinnufélaga, ættingja, nágranna eða aðra sem syrgja. Það getur verið sérstaklega gott að lesa kaflann um „óheppileg ummæli sem fólk lætur falla í eyru syrgjenda“.
 
Umræðan um sorg hefur breyst á undanförnum árum og flest eru opnari til að ræða um sorg og missi. Þessi bók er gott innlegg í þá umræðu og getur auðveldað fólki að eiga samtal um sorg.
 
Aldrei átti ég vona á að hlæja við lestur bókar um sorg.