Fara í efni
Íþróttir

Sögulegur sigur SFH á SA Víkingum

Andri Freyr Sverrison í baráttu við Braiden van Herk í leiknum í dag. Mynd er fengin af Facebook-síðu íshokkídeildar SA.

Skautafélag Hafnarfjarðar (SFH) vann sögulegan sigur á karlaliði Skautafélags Akureyrar, SA Víkingum, þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í dag. Sigurinn er sá fyrsti í sögu nýstofnaðs Hafnarfjarðarfélags. Sömu lið mætast aftur á morgun. 

Bæði lið skoruðu eitt mark í fyrsta leikhluta, Birkir Einisson kom SA yfir um miðjan leikhlutann, en um þremur mínútum síðar jöfnuðu Hafnfirðingar. Fyrsti leikhlutinn einkenndist frekar af refsingum en mörkum, fjórum sinnum fóru leikmenn SA í refsiboxið og liðsmenn SFH tvisvar. Annar leikhluti var svo alveg á hinn veginn og mörkunum rigndi hreinlega í seinni hluta hans. Jóhann Már Leifsson náði forystunni fyrir SA Víkinga þegar fimm mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta, en SFH svaraði með fimm mörkum. Staðan orðin 6-2 SFH í vil fyrir þriðja og síðasta leikhlutnan og sjöunda markið kom svo þegar stutt var eftir af leiknum.

Sigur SFH staðreynd, 7-2, og þar með fyrsti sigur í sögu félagsins. 

SFH

Mörk/stoðsendingar: Björn Sigurðarson 2/0, Gus Jerzy 1/3, Alex Kotásek 1/1, Pétur Maack 1/1, Andri Guðlaugsson 1/0, Edgar Protcenko 1/0, Steinar Veigarsson 0/1, Heiðar Kristveigarson 0/1, Ævar Arngrímsson 0/1. 
Varin skot: Radek Haas 29 (93,5%).
Refsimínútur: 12.

SA

Mörk/stoðsendingar: Birkir Einisson 1/0, Jóhann Már Leifsson 1/0, Gunnar Aðalgeir Arason 0/1, Andri Már Mikaelsson 0/1, Marek Vybostok 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 21 (80,8%), Tyler Szturm 11 (84,6%).
Refsimínútur: 12.

Reykjavíkurfélögin áttust einnig við í dag og þar höfðu Fjölnismenn betur gegn Íslandsmeisturum SR. Fjölnir og SR eru jöfn á toppnum með 16 stig eftir níu leiki, SA er með 12 stig úr sjö leikjum og SFH fór í fjögur stig með sigrinum í dag, einnig eftir sjö leiki. Tapið í dag svíður því líklega meira en ella þar sem SA hefði getað nartað í hæla Reykjavíkurliðanna með sigri í dag og farið á toppinn með sigri á morgun. 

Leikurinn í dag var heimaleikur SFH þar sem félagið hefur ekki sitt eigið svell til að spila á. Liðin mætast aftur á morgun, sem verður þá heimaleikur SA Víkinga. „Þá verða þeim ekki sýnd nein vettlingatök“ segir á Facebook-síðu hokkídeildar SA. Það má því búast við hörkuleik ef SA Víkingar sýna sitt rétta andlit enda þarf góða frammistöðu gegn Hafnarfjarðarliðinu sem hefur meðal annars á að skipa sex erlendum leikmönnum.