Fara í efni
Íþróttir

Sigur og tap hjá hokkíliðum SA í gær

Bæði meistaraflokkslið SA í íshokkí héldu suður í gær og mættu liðum Fjölnis í Egilshöllinni. Karlalið SA vann eftir framlengingu og vítakeppni, en kvennaliðið tapaði og missti af deildarmestaratitlinum í hendur Fjölniskvenna.

Karlalið SA hafði þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn í úrslitakeppninni þannig að leikurinn hafði ekki beint neina þýðingu fyrir stöðu liðsins í deildinni. Svo fór að SA vann eftir framlengingu og vítakeppni, en þau úrslit þýða að vonir Fjölnis um sæti í úrslitakeppninni eru úr sögunni. Það verða því deildarmeistarar SA og Íslandsmeistarar SR sem mætast enn og aftur í úrslitarimmunni fjórða árið í röð.

Fjölnir tók forystuna í leiknum í gær eftir aðeins hálfa mínútu, en Unnar Hafberg Rúnarsson jafnaði eftir 12 mínútur með stoðsendingum frá Ormi Jónssyni og Atla Sveinssyni. Aftur komust Fjölnismenn yfir og staðan 2-1 eftir fyrsta leikhluta.

Fljótlega í öðrum leikhluta náði Fjölnir tveggja marka forystu, en Andri Már Mikaelsson jafnaði skömmu síðar með stoðsendingum frá Ólafi Baldvini Björgvinssyni og Orra Blöndal, og Ormur Jónsson jafnaði í 3-3 í þriðja leikhlutanum eftir stoðsendingu frá Andra Má Mikaelssyni.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því gripið til vítakeppni. Þar var Jóhann Már Leifsson sá eini sem kom pökknum í netið, önnur skot voru annaðhvort varin eða fóru framhjá. Róbert Steingrímsson varði fjögur vítaskot í marki SA og aukastigið kom með norður. Róbert varði 38 skot í marki SA í leiknum.

SA er nú með 37 stig, SR er með 28, Fjölnir 27 og SFH 11 stig. Lokaleikur deildarinnar er viðureign SA og SR í Skautahöllinni á Akureyri laugardaginn 8. mars.

Fjölnir tók deildarbikarinn í Toppdeild kvenna

Leikmönnum kvennaliða SA og Fjölnis gekk illa að ná skotum á markið og í markið. Niðurstaðan varð eins marks sigur Fjölnis, 1-0. Eina mark leiksins skoraði Kolbrún María Garðarsdóttir eftir rúmlega sjö mínútna leik í fyrsta leikhluta og þar við sat. Shawlee Gaudreault varði 16 skot (94,1%) í marki SA, en Karitas Halldórsdóttir varði 11 skot í marki Fjölnis, sem augljóslega er 100% þar sem SA tókst ekki að skora.

Tveir leikir eru eftir í deildinni, en röð liðanna mun ekki breytast hvernig sem þeir fara. Fjölnir er með 31 stig, SA er með 23 stig og SR 12 stig. Lokaleikur SA í deildarkeppninni verður gegn SR á Akureyri laugardaginn 8. mars.