Fara í efni
Íþróttir

SR-liðin spilltu deildarmeistaragleði

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA, með deildarmeistarabikarinn. Við hlið hans er Elísabet Inga Ásgrímsdóttir, formaður hokkídeildar SA. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Lokaleikir Toppdeilda karla og kvenna í íshokkí voru spilaðir í Skautahöllinni á Akureyri í dag og í kvöld. Karlalið SA hafði þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn í komandi úrslitarimmu gegn SR, en það voru gestirnir sem spilltu gleðinni með gullmarki í framlengingu. Seinni leikur dagsins var á milli kvennaliða SA og SR og þar voru gestirnir einnig í hlutverki gleðispillanna. Bæði SR-liðin með sigur á Akureyri í dag.


Leikmenn SA fagna marki, en það var nóg af þeim í leik liðanna í dag, 12 mörk í venjulegum leiktíma og eitt til viðbótar í framlengingu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Hiti í þýðingarlitlum leik

Þegar upp var staðið varð fyrri leikur dagsins orðinn að markaveislu, jafnt var 6-6 eftir þrjár lotur og því gripið til framlengingar. Gestirnir úr SR náðu sigrinum og aukastiginu með sjöunda marki sínu. Nokkur hiti var í leiknum þrátt fyrir að hann skipti í raun engu máli upp á röðun liðanna í deildinni og framhaldið í úrslitarimmunni. Ákafi leikmanna beggja liða gefur þó vonandi fyrirheit um skemmtilega og spennandi rimmu fram undan á milli þessara liða í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Deildarmeistaratitillinn er Akureyringa, eins og ljóst varð fyrir nokkru, en það er sá stóri sem skiptir máli og sigurgleðin því ekkert sérstök þegar liðsmenn SA tóku við deildarmeistarabikarnum. Þeir unnu nefnilega sama bikar í fyrra, en töpuðu rimmunni um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Baltasar Hjálmarsson og Andri Már Mikaelsson skoruðu fyrir SA í fyrsta leikhluta og SA með 2-1 forystu. Þrjú mörk komu frá hvoru liði í 2. leikhluta og staðan 5-4 fyrir lokaþriðjunginn. Hafþór Andri Sigrúnarson, Uni Blöndal og Unnar Hafberg Rúnarsson skoruðu í fyrri hluta leikhlutans og komu SA í 5-2 forystu. Það dugði þó skammt því SR-ingar minnkuðu muninn í eitt mark í lok 2. leikhluta og jöfnuðu svo í 5-5 og aftur í 6-6 eftir að Gunnar Aðalgeir Arason hafði komið SA yfir þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Jafnt eftir venjulegan leiktíma og stigunum skipt, 1-1, en það voru svo gestirnir úr SR sem hirtu aukastigið með gullmarki eftir um tveggja mínútna leik í framlengingunni.


Þessir spilltu deildarmeistaragleðinni með marki í framlengingu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.


Þær voru glaðar með bikarinn, þessar SA-stelpur, og má kannski grípa til gömlu klisjunnar og segja að framtíðin sé björt hjá kvennaliði SA. Það vantar að minnsta kosti ekki áhugann. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

SA er deildarmeistari í Toppdeild karla, klárar deildarkeppnin með 38 stig, SR náði 31 stig, Fjölnir 28 og SFH 11. Það verða því SA og SR sem kljást um Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. Fyrsti leikur í seríunni verður á Akureyri laugardaginn 29. mars samkvæmt mótaskrá ÍHÍ.

Leikurinn í dag var í beinu streymi á YouTube-rás ÍHÍ og má sjá upptöku af leiknum í spilaranum hér að neðan.

SR-sigur líka í seinni leik dagsins

Seinni leikur dagsins var á milli kvennaliða SA og SR og skipti sá leikur ekki neinu máli heldur upp á lokastöðuna í deildinni og framhaldið í úrslitarimmunni. Fjölnir hafði þegar unnið deildarmeistaratitilinn og SA öruggt í 2. sætinu. 

Það voru gestirnir úr Laugardalnum sem byrjuðu mun betur og höfðu náð þriggja marka forystu áður en fyrsta leikhluta lauk. SA náði inn einu marki í hvorum leikhluta eftir það, Aðalheiður Ragnarsdóttir og Silvía Rán Björgvinsdóttir sem skoruðu, en það var ekki nóg. SR fór með 3-2 sigur af hólmi. 

Fjölnir er deildarmeistari í Toppdeild kvenna, náði sér í 34 stig, SA endaði með 23 stig og SR 15 stig. Það verða því SA og Fjölnir sem mætast í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn og hefst það strax á þriðjudag, 11. mars, með leik í Egilshöllinni í Reykjavík. 

Leikurinn í dag var í beinu streymi á YouTube-rás ÍHÍ og má sjá upptöku af leiknum í spilaranum hér að neðan.