Fara í efni
Íþróttir

Sigur eftir framlengingu og vítakeppni

SA-konur fagna sigri eftir framlengingu og vítakeppni. Skjáskot úr YouTube-streymi.

Kvennalið SA í íshokkí vann Íslandsmeistara Fjölnis í Topp-deild kvenna í dag eftir framlengdan leik og vítakeppni. SA-konur eru því áfram á toppi deildarinnar.

Fyrstu tveir leikhlutarnir voru tíðindalitlir og markalausir. Það var síðan snemma í þriðja leikhluta sem Kolbrún María Garðarsdóttir kom gestunum yfir með fyrsta marki leiksins eftir stoðsendingu frá Berglindi Leifsdóttur. Upp úr miðjum leikhlutanum jafnaði Amanda Ýr Bjarnadóttir. Meira var ekki skorað í leiknum og því framlengt og áfram vildi pökkurinn ekki í markið þrátt fyrir margar tilraunir og nokkra spennu á lokamínútunum. Lokatölur 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu.

Því þurfti að grípa til vítakeppni. Þar skoruðu Anna Sonja Ágústsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir og Silvía Rán Björgvinsdóttir fyrir SA og Hilma Bóel Bergsdóttir fyrir Fjölni, en önnur víti fóru forgörðum. SA-konur fengu því aukastigið. 

SA

Mörk/stoðsendingar: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 23 (95,83%).
Refsimínútur: 4.

Fjölnir

Mörk/stoðsendingar: Kolbrún María Garðarsdóttir 1/0, Berglind Leifsdóttir 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir 32 (94,12%).
Refsimínútur: 10.

Með sigrinum í vítakeppninni náðu SA-konur í aukastigið sem í boði var. Liðin skipta með sér stigum eftir jafntefli í framlengingu, en eftir vítakeppnina náði SA sér í tvö stig á móti einu stigi Fjölnis og heldur því toppsætinu. SA hefur 19 stig úr níu leikjum, en Fjölnir 17 stig úr átta leikjum. 

Leiknum var streymt á YouTube-rás ÍHÍ og þar má sjá upptöku af leiknum:

Hér er hægt að fara beint inn í upptökuna þegar vítakeppnin hófst: