Fara í efni
Íþróttir

„Tölum stundum um annað en íshokkí!“

Sarah Smiley með Ingvari Þór, eiginmanni sínum og dætrunum þremur, f.v. Bonny Lilja, Þórey Rós og Ronja Alís. Fjölskyldan er öll í hokkí og Sarah segist mjög þakklát fyrir að dæturnar finni sig í íþróttinni eins og foreldrarnir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Þegar íshokkíkonan Sarah Smiley kom fyrst til Akureyrar frá stórborginni Toronto, búin að gera samkomulag við Skautafélag Akureyrar um að spila með íshokkíliðinu og þjálfa, hugsaði hún með sér; á mér ekki eftir að leiðast hér? Þetta er svo lítill bær. Átján árum síðar er hún hér enn, fann ástina í Skautahöllinni og þjálfar nú stóran hóp íshokkíkrakka, þar á meðal sínar eigin dætur. „Það kom á daginn að mér leiðist ekki neitt og ég elska þennan litla bæ. Nú kem ég til Toronto og finnst það allt of stórt og of mikil læti,“ segir Sarah við blaðamann Akureyri.net.

Þetta er annar hluti viðtalsins við Söruh Smiley.

Í GÆRVARÐ STRAX ÁSTFANGIN AF ÍSHOKKÍ – OG ÍSLANDI

„Mér fannst Akureyri strax æðislegur staður,“ segir Sarah. „Ef ég fékk heimþrá þá þurfti ég bara að fara út í náttúruna, það virkaði alltaf og lét mér líða betur.“ Það varð svo til þess að tengja Söruh enn traustari böndum við eyjuna í norðri, að hún kynntist Ingvari Þór Jónssyni. „Ég kynntist Ingvari á þriðja árinu mínu á Íslandi. Hann var búinn að vera í námi í Danmörku, en hann bjó á Akureyri sem krakki og vildi koma hingað aftur þó að fjölskyldan hans væri í Reykjavík.“ Sarah var þarna byrjuð að þjálfa meistaraflokkana, og hún segir að það hafi alls ekki verið planið að byrja saman, þar sem hún var þjálfari Ingvars. „Í rauninni má það ekkert,“ segir hún. „Kannski var þetta aðeins slakara þá. En öll vorum við fullorðin og við gátum bara rætt þetta og allt í góðu. Ég þjálfaði karlaliðið bara í eitt ár.“

Á sumrin elskum við útileigur og förum saman að tjalda í Kanada. Í rauninni er öll útivera áhugamálið okkar

Sarah og Ingvar eiga þrjár dætur, þær Bonny Lilju, Ronju Alís og Þóreyju Rós. Þær bera allar bæði eftirnöfn foreldra sinna og heita Smiley Ingvarsdóttir. „Ég tel mig mjög heppna, að dætur mínar eru allar í íshokkí og njóta sín,“ segir Sarah. „Það eru ekki allir þjálfarar svo heppnir, að börnin vilji koma með og finni sig í raun og veru í þessu. Ég var búin að gera mér grein fyrir því, að kannski yrði hugur þeirra annars staðar, en hingað til eru þær mjög ánægðar. Ég er svo þakklát fyrir það og fæ að vera með þeim meira.“

Fjölskyldan talar stundum um eitthvað annað en íshokkí

„Við höfum samt lagt áherslu á, við þær allar, að reyna að finna sitt líka,“ segir Sarah, en í upphafi viðtalsins kom fram að hún þurfti sjálf að finna út úr því að íshokkí væri hennar ástríða, þegar hún var barn. „Við viljum að þær séu opnar fyrir því að skoða fleiri möguleika og viljum forðast samkeppni þeirra á milli.“ Sarah segir að það komi alveg fyrir að fjölskyldan tali um eitthvað annað en íshokkí. „Á veturna hugsum við vissulega mest um hokkí. En við erum mikil bókafjölskylda og lesum oft saman. Á sumrin elskum við útileigur og förum saman að tjalda í Kanada. Í rauninni er öll útivera áhugamálið okkar.“

 

Kvennalið Skautafélags Akureyrar hefur verið sigursælt í gegnum tíðina, en þær hafa unnið 17 Íslandsmeistaratitla á þeim 19 árum sem keppt hefur verið. Hér fagnar Sarah Íslandsmeistaratitlinum 2014 með Birnu Baldursdóttur og Guðrúnu Blöndal. Það var einmitt sú síðarnefnda sem sendi fyrirspurn um nýja leikmenn til Kanada árið 2006, sem lenti fyrir rest í pósthólfinu hjá Söruh og markaði upphafið að Íslandsævintýri hennar. Mynd: Facebook

Aftur að þjálfarastarfinu, en eins og fram hefur komið í viðtalinu, brennur Sarah fyrir þjálfun og það er engin tilviljun að hún er yfirþjálfari yngri flokka. „Fyrstu árin hjá SA var ég bókstaflega að þjálfa alla,“ segir Sarah, en hún var líka að spila á fullu sjálf. „Það var rosalega mikið, og ég sá strax að ef þú vilt byggja eitthvað upp, þá getur þú ekki verið í öllu.“ Hún fann fljótlega að það gaf henni mest að einbeita sér að krökkunum og þróa uppbyggingu íshokkídeildarinnar frá grunni.

Skemmtilegast að vinna með yngstu krakkana og sjá þau blómstra

Þó að þjálfarastarfið væri orðið áhugamál hjá Söruh þegar hún flutti til Íslands, var það ekki alltaf þannig. „Ég viðurkenni, að mér fannst erfitt að þjálfa þegar ég var ung,“ segir Sarah, en í fyrri parti viðtalsins kemur fram að hún var byrjuð að fá þjálfunarstörf á unglingsaldri í Kanada. „Ég vildi aldrei verða kennari, mér fannst þessi börn ekkert hlusta á mig! En þegar ég þroskaðist og fékk meiri ábyrgð hérna á Akureyri, þá breyttist allt. Krakkarnir finna það, þegar maður ber ábyrgð og ræður ferðinni. Þá hlusta þau. Fyrst dreymdi mig um að þjálfa meistaraflokkana, sem ég fékk að gera eftir tvö ár hjá SA, og gerði um tíma. Svo breyttist áhuginn allt í einu.“ Í dag finnst Söruh skemmtilegast að vinna með yngstu iðkendurna og sjá þau blómstra og þroskast sem leikmenn. „Það gefur mér miklu meira og er búið að vera ástríða mín síðan. Það er best í heimi.“

 

Ein af uppáhalds myndum Söruh, en til vinstri er hún með hressum stúlkum á krakkamóti, en til hægri eru þessar sömu stúlkur orðnar aðeins eldri, á landsliðsæfingu. F.v. Herborg Rut Geirsdóttir, Teresa Regína Snorradóttir, Hilma Bóel Bergsdóttir, Kolbrún María Garðarsdóttir, Katrín Rós Björnsdóttir og Sunna Björgvinsdóttir. Myndir úr einkasafni

Góðar minningar frá landsliðsverkefnum 

Sarah var ekki bara hvalreki fyrir Skautafélag Akureyrar, heldur líka Íshokkísambandið. „Þegar ég kom fyrst til Íslands var mér boðið að taka við íslenska kvennalandsliðinu strax,“ segir Sarah en hún rifjar upp að hafa farið með liðið á tvö alþjóðleg mót árin 2007 og 2008, bæði heimsmeistaramót í Rúmeníu. „Það er himinn og haf á milli frammistöðunnar á þessum mótum,“ segir Sarah. „Fyrra árið lentum við í 4. sæti, meðal annars með 10-0 tap fyrir liði Nýja-Sjálands á bakinu. Aðeins ári seinna, eftir að ég var búin að leggja mig alla fram við að bæta æfingarnar, unnum við mótið og náðum að sigra þetta sama lið frá Nýja-Sjálandi 5-2. Það er alveg ótrúlega góð minning fyrir mig sem þjálfara.“

Ég meiddist reyndar á þessu móti, fékk heilahristing sem markaði í raun endann á ferlinum sem leikmaður, en ég var orðin 37 ára og mjög sátt með mitt framlag

„Við héldum svo æfingamót á Akureyri fyrir landsliðið árið 2011 og þá reyndi ég að fá ríkisborgararétt til þess að geta spilað sjálf en náði því ekki“ segir Sarah. En Íslendingur var hún orðin ári síðar og klæddist bláu landsliðstreyjunni á stórmóti í fyrsta sinn. „Það var svakaleg upplifun að fá að keppa með landsliðinu, ég lærði þjóðsönginn og var svo stolt!“ Árið 2020 var heimsmeistaramót kvenna í 2. deild B haldið í Skautahöllinni á Akureyri, en þaðan segir Sarah eiga sínar uppáhalds minningar sem leikmaður. „Það var svo gaman að fá að keppa með landsliðinu í okkar höll. Ég meiddist reyndar á þessu móti, fékk heilahristing sem markaði í raun endann á ferlinum sem leikmaður, en ég var orðin 37 ára og mjög sátt með mitt framlag.“

 

Myndir frá landsliðsferlinum. Báðar frá árinu 2020. T.v. mynd af ishokki.is. T.h. Sarah tekur við silfurverðlaunum á HM í Skautahöllinni á Akureyri 2020. Mynd: Facebook

„Við leggjum mikla áherslu á að nýta hverja mínútu á ísnum,“ segir Sarah. „Við höfum takmarkaðan æfingartíma og við erum alltaf að þróa skipulagið. Svo er líka mikil áhersla lögð á að ráða góða þjálfara. Þau þurfa að hafa gaman af því að vinna með börnum.“ Móttaka nýrra iðkenda í íshokkí er í miklum forgangi hjá Söruh og öðrum þjálfurum SA; að upplifunin sé góð fyrir bæði barn og foreldra. „Það er svo mikið sem fylgir, búnaðurinn er svolítið flókinn, og við lánum allt sem barnið þarf og aðstoðum við að koma öllum inn í íþróttina. Svo náttúrulega að bjóða þau velkomin í fjölskylduna, sem Skautafélag Akureyrar í rauninni er.“

Mikið vandaverk að bjóða nýjum þjálfurum til Akureyrar

Oft koma þjálfarar og leikmenn til SA erlendis frá, eins og Sarah gerði sjálf á sínum tíma. „Reynslan í íshokkíheiminum hérna á Íslandi er ekki eins mikil og víða annarsstaðar,“ segir hún. „Það er mjög mikilvægt að yfirþjálfari meistaraflokkanna sé með reynslu og sé vel menntaður eða menntuð. Þá fáum við mest út úr okkar liði og getum þróað framfarirnar hjá unglingunum okkar líka.“ Sarah segir að það sé mikil vinna sem liggur að baki, þegar leitað er út fyrir landsteinana að góðum þjálfurum. „Við viljum velja vel, við bjóðum ekki bara hverjum sem er og vöndum okkur mjög.“

 

Iðkendum SA í íshokkí fjölgar með ári hverju. Í janúar á þessu ári hélt SA stærsta krakkamót fyrir 10 ára og yngri sem haldið hefur verið á Íslandi. 160 krakkar frá SA, SR og Birninum kepptu, 93 þeirra í rauðu treyjunni. Mynd: RH

„Stundum erum við heppin, og fáum leikmenn sem eru frábærir þjálfarar líka,“ segir Sarah, og nefnir sem dæmi markmanninn Shawlee Gaudreault. „Þar unnum við lottóið. Hún var valin íshokkíkona ársins hjá SA í fyrra og er að blómstra sem þjálfari.“ Sarah rifjar upp þegar hún sjálf kom fyrir átján árum síðan og upplifði strax að hún væri velkomin í SA-fjölskylduna. „Ég fór í íslenskukennslu og hitti þar annað fólk erlendis frá. Einhverjir höfðu allt aðra upplifun af því að koma til Akureyrar, voru einangruð og komust ekki inn í samfélagið. Á meðan var ég í matarboðum og gripin um leið.“ Sarah viðurkennir að það sé kannski ekki bara einstök fjölskyldumenning Skautafélagsins, sem naut þess líka að vera lítið félag þá, heldur væri mögulega líka því að þakka, hvað hún var opin sjálf.

Enginn er skilinn útundan í hokkífjölskyldu SA

„Ég setti mér þá reglu að ef mér væri boðið eitthvað, þá myndi ég fara,“ segir Sarah. „Þó ég væri þreytt og langaði kannski mest að leggjast í sófann, ef ég fengi heimboð eða boð um að gera eitthvað með fólkinu í félaginu, þá myndi ég þiggja það. Þannig gæti ég kynnst fólki hraðar.“ Það hefur líka sést, að það hefur reynst íþróttafólki sem kemur til Akureyrar vel, að fara í íslenskukennslu eins og Sarah gerði. „Við leggjum okkur samt alltaf fram, í SA, að umvefja útlendingana sem koma og hugsa vel um þau. Enginn er skilinn útundan.“