Fara í efni
Íþróttir

Fjölmennt frá SA í U20 liðinu í íshokkí

SA-strákarnir sem eru með U20 landsliði Íslands í íshokkí í Serbíu þessa dagana. Nöfn leikmanna má finna með myndinni inni í fréttinni. Myndin er af vef Skautafélags Akureyrar.

Eins og í U18 landsliði kvenna í íshokkí eru fulltrúar Skautafélags Akureyrar í U20 landsliði karla fjölmennir. Liðið er í Belgrad í Serbíu og hefur undanfarna daga spilað í 2. deild, riðli B, í Heimsmeistaramótinu. Alls eru þar 14 SA-strákar í 22ja manna hópi, auk þess sem feður tveggja leikmanna eru í starfsliðinu. 

Íslenska liðið tapaði fyrir Spánverjum í fyrsta leik, 0-2. Spánverjar hafa unnið alla leiki sína til þessa og hafa nú þegar tryggt sér sigur í riðlinum þó þeir eigi einn leik eftir. Í öðrum leiknum gerði íslenska liðið sér lítið fyrir og vann Serba, 3-2, á þeirra heimavelli. Í þeim leik skoraði Birkir Einisson eitt mark og Arnar Helgi Kristjánsson átti tvær stoðsendingar.

Annar leikur liðsins byrjaði vel, en endaði illa. Þá áttu strákarnir í höggi við Ástrala og komust í 2-0 og síðan 4-1 í lok annars leikhluta. Ástralar gripu til sinna ráða í þriðja og síðasta leikhlutanum, skoruðu fjögur mörk á um sjö mínútna kafla og hirtu öll stigin, Ísland-Ástralía 4-5. Ólafur Baldvin Björgvinsson skoraði eitt marka Íslands og þeir Uni Blöndal og Þorleifur Rúnar Sigvaldason áttu sína stoðsendinguna hvor.

Þriðji leikurinn fór betur, öruggur 7-2 sigur á liði Belgíu. Í þeim leik skoraði Birkir Einisson tvö mörk og átti eina stoðsendingu, Arnar Helgi Kristjánsson skoraði eitt og átti þrjár stoðsendingar, Uni Blöndal Sigurðarson skoraði eitt og átti eina stoðsendingu og Ólafur Baldvin Björgvinsson átti þrjár stoðsendingar. 

Lokaleikur liðsins fer fram í dag. Með sigri geta þeir endað í verðlaunasæti í mótinu. Fyrir leikinn í dag er Arnar Helgi Kristjánsson jafn öðrum leikmanni með flestar stoðsendingar í mótinu, en hann hefur átt fimm slíkar. 

Með U20 liðinu eru einnig þrír fulltrúar SA, þjálfarinn og tveir fararstjórar.

  • Sheldon Reasbeck, þjálfari SA, er aðalþjálfari U20 landsliðsins
  • Jóhann Þór Jónsson bráðatæknir er liðsstjóri/fararstjóri
  • Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður SA, er fararstjóri

Öllum leikjum liðsins á mótinu hefur verið streymt á YouTube og jafnframt hægt að horfa á upptökur af leikjunum. Síðasti leikur Íslands verður einnig í beinu streymi á YouTube, en hann hefst kl. 11:30 að íslenskum tíma.