Fjölmargir kappleikir fram undan um helgina
![](/static/news/lg/upphitun-7-2-25.jpg)
Verkefni íþróttaliða Akureyrar í meistaraflokkum verða næg um helgina, bæði heima og að heiman. Körfubolti, blak, handbolti, fótbolti og íshokkí eru á dagskrá helgarinnar. Alls eru 11 leikir meistaraflokksliða frá Akureyri á dagskrá frá því í dag og fram á sunnudag.
FÖSTUDAGUR – körfuknattleikur
Þórsarar sækja lið Skallagríms heim í Borgarnes í 17. umferð 1. deildar karla í kvöld. Nú eru sex umferðir eftir af deildarkeppninni áður en kemur að úrslitakeppni liðanna í 2.-9. sæti um sæti í efstu deild og gríðarlega jöfn og spennandi keppni fram undan um sæti 5-9. Fjögur efstu liðin eru aðeins á undan næstu liðum. Þórsarar komu sér upp í 5. sætið með sigri í síðustu umferð, en Fjölnir og Breiðablik eru einnig með sjö sigra eins og Þór, og fast á hæla þeirra fylgir KV með sex sigra. Liðið sem endar í 5. sæti deildarinnar mætir liðinu í 6. sæti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og 5. sætið því mikilvægt upp á heimaleikjaréttinn. Skallagrímur er í 12. sæti deildarinnar með þrjá sigra.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttamiðstöðin í Borgarnesi kl. 19:15
Skallagrímur - Þór
LAUGARDAGUR – handbolti, blak, fótbolti, íshokkí
Laugardagurinn er pakkaður af kappleikjum, heima og að heiman. Handbolti, blak og fótbolti á útivelli, handbolti og íshokkí á heimavelli.
Það verður toppslagur í næstefstu deild karla í handknattleik, Grill 66 deildinni, á laugardag þegar Þórsarar sækja Selfyssinga heim. Bæði lið eru með 18 stig á toppi deildarinnar, en Þór á leik til góða. Sigur á Selfyssingum kæmi Þórsurum í góða stöðu á toppi deildarinnar því efsta liðið sleppur við umspil og fer beint upp í Olísdeildina. Enn eru þó nokkrar umferðir eftir af deildinni og ýmislegt sem getur breyst. Þór á sex leiki eftir, Selfoss á fimm, en næstir koma Víkingar með 14 stig og eiga sex leiki eftir.
- Grill 66 deild karla í handknattleik
Set-höllin á Selfossi kl. 14
Selfoss - Þór
Karlalið KA í blaki gerði sér lítið fyrir og vann topplið Hamars á dögunum og er nú í 2. sæti, þremur stigum á eftir Hvergerðingum og einu stigi á undan Þrótturum úr Reykjavík. Efstu liðin hafa öll leikið 16 leiki og eiga því fimm leiki eftir áður en kemur að úrslitakeppni.
- Unbroken-deild karla í blaki
Íþróttamiðstöðin að Varmá í Mosfellsbæ kl. 14
Afturelding - KA
Þriggja liða barátta er í algleymingi á toppi efstu deildar Íslandsmótsins í blaki, Unbroken-deildarinnar. KA er á toppnum með 35 stig, en Völsungur nartar í hæla þeirra með 34 stig eftir að hafa lagt KA að velli á Húsavík á dögunum. Mótherji KA í dag, Afturelding, er svo í 3. sætinu með 32 stig. Þessi þrjú lið hafa öll leikið 14 leiki og eiga því fjóra leiki eftir.
- Unbroken-deild kvenna í blaki
Varmá í Mosfellsbæ kl. 16
Afturelding - KA
Þórsarar hefja leik í riðli 3 í A-deild Lengjubikars karla á morgun, laugardag, þegar þeir sækja lið Aftureldingar heim í Mosfellsbæinn. Aðrir keppinautar Þórs í riðlinum eru FH, HK, ÍR og Víkingur.
- A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 3
Varmá í Mosfellsbæ kl. 15
Afturelding - Þór
Karlalið SA í íshokkí er á toppi Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar, og á að auki leik til góða á liðið í 2. sæti og tvo á liðið í 3. sæti. SA er með 29 stig, SR með 26 og Fjölnir 21. Fjölnismenn verða einmitt mótherjar SA í karlaleik laugardagsins. Liðin leika 18 leiki í deildinni áður en kemur að úrslitakeppni og eiga Akureyringar því fimm leiki eftir. Öll fjögur liðin í deildinni fara í úrslitakeppni og deildarmeistararnir mæta neðsta liði deildarinnar, SFH, sem eru þó sýnd veiði en ekki gefin. SFH er á botni deildarinnar með 11 stig, en hafa þó sýnt að þeir geta unnið öll hin liðin á góðum degi.
- Toppdeild karla í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - Fjölnir
KA/Þór hefur siglt taplaust í gegnum næstefstu deild kvenna í handknattleik hingað til og aðeins gert jafntefli í tveimur leikjum af 13, en unnið 11 leiki. Liðið er með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar, hefur náð sér í 24 stig í 13 leikjum. Afturelding kemur næst með 19 stig og HK er með 18, einnig úr 13 leikjum. Leikurinn laugardaginn ætti ekki að vefjast fyrir KA/Þór, mótherjarnir eru í neðsta sæti deildarinnar án stiga og hafa tapað leikjum sínum að meðaltali með 18 marka mun.
- Grill 66 deild kvenna í handknattleik
KA-heimilið kl. 17
KA/Þór - Berserkir
Tvö efstu lið Íslandsmóts kvenna, Toppdeildarinnar, mætast tvívegis í Skautahöllinni á Akureyri um helgina, bæði á laugardag og sunnudag. Fjölnir er ríkjandi Íslandsmeistari undanfarinna tveggja ára og er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig, en SA í 2. sæti með 20 stig. Bæði lið hafa leikið 11 leiki og eiga fimm leikjum ólokið. Fram undan er því hörkukeppni um heimaleikjaréttinn fyrir úrslitakeppnina. Fjölnir getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn og heimaleikjaréttinn með því að vinna báðar viðureignirnar á Akureyri um helgina, en SA-konur og stuðningsmenn vilja örugglega koma í veg fyrir það.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
SA - Fjölnir
SUNNUDAGUR – handbolti, fótbolti, íshokkí
Keppni í A-deild Lengjubikars karla er hafin og spilar KA sinn annan leik í riðli 2 á sunnudag. Fyrsti leikurinn endaði með jafntefli gegn Völsungi, en á sunnudaginn heimsækir karlalið KA Njarðvíkinga heim suður með sjó. Auk Völsungs og Njarðvíkur er KA í riðli með Breiðabliki, Fram og Fylki.
- A-deild Lengjubikars karla, riðill 2
Nettóhöllin í Reykjanesbæ kl. 15
Njarðvík - KA
Sjö umferðir eru eftir af efstu deild Íslandsmóts karla í handknattleik, Olísdeildinni, og hvert stig dýrmætt fyrir KA sem er í harðri baráttu í neðri hluta deildarinnar. Fyrir leikinn á sunnudag þegar karlalið KA sækir ÍR heim er KA í 9. sæti deildarinnar með tíu stig úr 15 leikjum. Grótta er sömuleiðis með tíu stig, en þar fyrir neðan eru ÍR með átta stig og Fjölnir sex. Átta efstu liðin fara í úrslitakeppni deildarinnar. KA getur því með sigri á sunnudaginn slitið sig aðeins frá neðstu liðunum og um leið mögulega náð HK sem er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig.
- Olísdeild karla í handknattleik
Skógarsel í Breiðholti kl. 16
ÍR - KA
Keppni í A-deild Lengjubikarsins er hafin en fyrsti leikurinn hjá Þór/KA verður síðdegis á sunnudag þegar lið Tindastóls mætir í Bogann. Aðrir mótherjar Þórs/KA í riðli 1 eru Fram, Fylkir, Valur og Þróttur.
- A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu
Boginn kl. 17
Þór/KA - Tindastóll
Seinni viðureign kvennaliða SA og Fjölnis þessa helgina verður á sunnudagskvöldið. Fyrir laugardagsleikinn var Fjölnir með 23 stig og SA 20 stig. Eftir sunnudagsleikinn eiga bæði liðin eftir þrjá leiki.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 18:45
SA - Fjölnir