Sandra María eða Arna Sif best í deildinni?
Tveir Akureyringar, Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA og Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrrverandi fyrirliði liðsins og nú leikmaður Vals, koma til greina sem besti leikmaður Íslandmótsins í knattspyrnu. Arna Sif var kjörin best í fyrra.
Síðasta umferð deildarinnar fer fram í dag og í kvöld og KSÍ tilkynnti í morgun hverjar urðu í fjórum efstu sætum í kjöri þar sem allir leikmenn liðanna í deildinni kjósa eins og tíðkast hefur í áratugi.
Þær fjórar bestu eru, í stafrófsröð:
- Arna Sif Ásgrímsdóttir, Val
- Bryndís Arna Níelsdóttir, Val
- Katherine Cousins, Þrótti
- Sandra María Jessen, Þór/KA
Þær fjórar sem urðu efstar í kosningunni á efnilegasta leikmanninum eru þessar, í stafrófsröð:
- Fanney Inga Birkisdóttir, Val
- Ísabella Sara Tryggvadóttir, Val
- Katla Tryggvadóttir, Þrótti
- Sædís Rún Heiðarsdóttir, Stjörnunni
Leikirnir í lokaumferðinni eru þessir:
- 15.45 FH - Þór/KA
- 19.15 Valur - Breiðablik
- 19.15 Stjarnan - Þróttur R.
Valur hefur þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en í dag kemur í ljós hvort Breiðablik eða Stjarnan nær öðru sæti og fær þar með keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári. Breiðabliki nægir jafntefli gegn Val til en tapi Blikarnir hreppir Stjarnan annað sætið með því að vinna Þrótt. Sigri Þróttur hins vegar fer liðið upp fyrir Stjörnuna og í þriðja sæti.
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni