Fara í efni
Íþróttir

Hefja atlögu að fjórða titli tímabilsins

Kvennalið KA er meistari meistaranna, bikarmeistari og deildarmeistari Unbroken-deildarinnar. Liðið er nú að hefja atlögu að fjórða titlinum á tímabilinu, Íslandsmeistaratitlinum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið KA í blaki hefur leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins, Unbroken-deildarinnar, í kvöld þegar liðið tekur á móti HK úr Kópavogi. KA hefur nú þegar unnið þá þrjá bikara sem í boði hafa verið á leiktíðinni, meistarar meistaranna í september, bikarmeistarar í Kjörísbikarnum og deildarmeistarar Unbroken-deildarinnar í mars og hefja nú atlögu að fernunni þegar undanúrslit Íslandsmótsins hefjast.

Fjögur efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina. Deildarmeistarar KA taka á móti HK í fyrsta leik, en hitt einvígið er á milli Völsungs og Aftureldingar, sem mætast sömu daga. Sigurlið þessara einvígja berjast svo um Íslandsmeistaratitilinn.

  • Íslandsmótið, Unbroken-deild kvenna í blaki – undanúrslit – leikur 1
    KA-heimilið kl. 19
    KA - HK

KA og HK mættust þrisvar í deildarkeppninni í vetur og einu sinni í bikarkeppninni og vann KA allar viðureignirnar.

Annar leikur liðanna fer fram á laugardag á heimavelli HK. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígið. Þriðji leikur, ef á þarf að halda, er á dagskrá þriðjudaginn 8. apríl.