Fara í efni
Íþróttir

KA-hóf úrslitakeppnina með öruggum sigri

Julia Bonet Carreras (fyrir miðri mynd) og samherjar hennar í KA fögnuðu öruggum sigri í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið KA hóf úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki með öruggum 3:0 sigri á HK í kvöld í KA-heimilinu. Þriðja og síðasta hrinan var reyndar æsispennandi og KA náði ekki að vinna hana fyrr en eftir upphækkun, 27:25, en hinar enduðu 25:13 og 25:14.

KA vann alla þrjá leikina gegn HK í deildinni í vetur og liðin mættust einnig í úrslitaleik bikarkeppninnar, þar sem KA hafði betur, 3:2.

Annar leikur KA og HK verður á laugardaginn í Kópavogi og sigri KA-stelpurnar þar tryggja þær sér sæti í úrslitaeinvíginu. Þurfi liðin að mætast þriðja sinni verður sá leikur í KA-heimilinu á þriðjudaginn kemur.

Í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Völsungur og Afturelding. Liðin mættust á Húsavík í kvöld og gestirnir úr Mosfellsbæ höfðu betur, 3:1. Afturelding vann fyrstu hrinuna 25:20, næstu 26:24, Völsungar minnkuðu muninn með því að vinna þriðju hrinuna örugglega 25:18 en gestirnir sigruðu mjög örugglega í þeirri fjórðu og síðustu, 25:12.