Fimm frá KA/Þór með landsliðum í Tékklandi
Stúlknalandslið Íslands í handbolta skipuð leikmönnum U19 og U17 léku bæði tvo vináttulandsleiki í Tékklandi um helgina en bæði lið undirbúa sig nú fyrir EM í sumar. U19 leikur á EM í Rúmeníu og U17 leikur á EM í Svartfjallalandi.
KA/Þór átti fimm fulltrúa í hópunum en Hildur Lilja Jónsdóttir lék með U19 og í U17 léku þær Bergrós Ásta Guðmundsdóttir, Kristín Birta Líndal Gunnarsdóttir, Lydía Gunnþórsdóttir og Sif Hallgrímsdóttir. Fjallað er um landsliðin á heimasíðu KA í dag.
„Hildur Lilja hefur verið fastamaður í landsliðshópnum undanfarin ár en íslenska liðið tapaði fyrri leik sínum við Tékka á föstudeginum 26-25 eftir hörkuleik en Tékkar leiddu 16-13 í hálfleik. Í síðari leiknum gerði Hildur Lilja tvö mörk fyrir íslenska liðið en lokatölur í þeim leik voru 24-17 Tékkum ívil eftir að staðan hafði verið 12-7 í hálfleik,“ segir á KA-síðunni.
Eldra landsliðið í Tékklandsferðinni. Hildur Lilja Jónsdóttir er númer 7, þriðja frá hægri í aftari röð.
„U17 ára liðið átti í erfiðleikum í upphafi fyrri leiksins en stelpurnar hafa ekki leikið marga leiki saman og því eðlilegt að það taki smá tíma að slípa leik liðsins saman. Staðan var 18-5 í hálfleik en stelpurnar sýndu mun betri leik í þeim síðari og voru lokatölur 29-18. Lydía gerði 5 mörk í leiknum og Bergrós eitt auk þess sem Sif varði 9 skot í markinu.
Í síðari leiknum lentu stelpurnar aftur í erfiðum kafla í byrjun leiks og var staðan 18-6 í hálfleik. Aftur voru batamerki á liðinu í síðari hálfleik og voru lokatölur 28-14. Lydía gerði 3 mörk í leiknum.
Mikilvæg reynsla hjá báðum liðum og verður spennandi að sjá framgöngu liðanna í undirbúningi fyrir EM í sumar.“