„Akureyrartríóið“ Kári, Steingrímur og Skúli
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXVI
Kári Árnason, sá kunni knattspyrnumaður sem fæddur var lýðveldisárið 1944, lést á dögunum og var jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í gær. Kári, sem var eldfljótur framherji og marksækinn, var KA-maður og lék um langt árabil með liði Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA). Hann lék 11 sinnum með íslenska landsliðinu og gerði eitt mark, gegn áhugamannalandsliði Spánar í 5:3 tapi í Madrid í júní 1967, í undankeppni Ólympíuleikanna í Mexíkó árið eftir.
Kári var í liði Íslands síðar það sama sumar, í umtalaðasta landsleik Íslands frá upphafi, 14:2 tapinu gegn Dönum í Kaupmannahöfn. Séra Aðalsteinn Þorvaldsson rifjaði þann leik upp á skemmtilegan hátt í minningarorðum í athöfninni í gær – þar sem hann vitnaði í skrif Kára sjálfs.
Gamla íþróttamyndin þessa vikuna er úr leik ÍBA og Fram í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á Akureyrarvelli sumarið 1963. Akureyringar, í hvítum treyjum, sækja þarna á syðra markið. Á myndinni er „Akureyrartríóið“ eins og það var stundum kallað, eitt hættulegasta sóknartríó sem sagt var hafa komið fram á Íslandsmótinu; lengst til vinstri er Steingrímur Björnsson, þá Kári Árnason og númer 8 er Skúli Ágústsson.
Kári heitinn gerði mark ÍBA í þessum leik þegar hann náði forystunni eftir mikinn einleik, en svo fór reyndar að Fram, sem var ríkjandi Íslandsmeistari, sigraði 2:1.
Í fyrra bindi hins mikla rits Sigmundar Ó. Steinarssonar, 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu, segir svo um þennan leik:
„Það voru 2.180 áhorfendur saman komnir á Akureyri þegar Framarar komu þangað í heimsókn og mikill fögnuður braust ú þegar Kári Árnason skoraði fyrir heimamenn á 25. mín., 1:0. Kári, sem fór á kostum í leiknum, lék þá á Jóhannes Atlason og vippaði knettinum yfir Geir Kristjánsson, markvörð.“
Til gamans má geta þess að það er umræddur Jóhannes Atlason sem stendur á marklínunni við hlið Geirs markvarðar. Jóhannes átti síðar eftir að þjálfa lið ÍBA og leika með liðinu, auk þess að þjálfa bæði KA og Þór. Aðrir eiga það ekki allt á ferilskránni.
VIÐBÓT - Sigmundur Ó. Steinarsson sendi eftirfarandi upplýsingar: Framararnir á myndinni eru, frá vinstri: Ragnar Jóhannsson, Halldór Lúðvíksson, Björn Helgason, Grétar Sigurðsson nr. 8, Jóhannes Atlason og Geir Kristjánsson.