Fara í efni
Fréttir

Vitundarvakning en ekki hræðsluáróður

Norðurorka fór af stað með vitundarvakningu í haust til að fá notendur til að velta betur og meira fyrir sér hvernig heita vatnið er notað. Akureyri.net fjallaði ítarlega um vatnið okkar með aðstoð starfsfólks Norðurorku og því forvitnilegt að heyra hvernig vitundarvakningin hefur gengið og hvað er í farvatninu. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra Norðurorku, gaf sér tíma í spjall um þetta málefni.

Gunnur leggur áherslu á að ekki sé ætlunin að vera með hræðsluáróður um nýtingu heita vatnsins heldur sé markmiðið að ná fram vitundarvakningu. Hún segir að þegar kemur að vatnsnotkun verði fólk oft kærulaust. „Okkur Íslendingum finnst svo sjálfsagt mál að geta skrúfað frá krana og fengið vatn. Það er ekki fyrr en eitthvað kemur upp á sem við áttum okkur á að þessi lífsgæði séu ekki alveg sjálfsögð.“ Gunnur bendir á að ástæður fyrir þessu kæruleysi, til dæmis í hitaveitunni, séu líklega þær að um sé að ræða ódýran orkugjafa sem í gegnum árin hefur verið talið að nóg væri til af.

Áskorun fyrir samfélagið í sameiningu

Það er ljóst að það er engin ein töfralausn til að leysa þessa áskorun heldur verðum við sem samfélag að bregðast við. „Enginn getur gert allt en öll getum við gert eitthvað. Ef hvert og eitt okkar bætir sig aðeins í að fara skynsamlega með heita vatnið, þá náum við árangri. Aðaltilgangur þessarar vitundavakningar er að benda á að með því að vera meðvitaðri um stöðuna þá er margt hægt að gera, án þess að skerða lífsgæði,“ segir Gunnur Ýr.


Vitundarvakningin var unnin undir heitinu HITAMÁL. 

En það var ekki að ástæðulausu sem farið var af stað með fræðslu um þetta málefni. „Það er fyrst og fremst sú staða sem komin er upp í hitaveitunni og þessi mikla aukning í notkun á heitu vatni sem við höfum séð undanfarin ár,“ segir Gunnur og vísar þá til þess að áætlað hafði verið að borholur á Hjalteyri myndu anna aukinni eftirspurn í a.m.k. tíu ár í viðbót. En eftir að grunur kom upp um tengingu kerfisins við sjó hafi staðan breyst. Þá varð ljóst að aðgerða væri þörf mun fyrr en áætlað hafði verið. Langan tíma getur tekið að rannsaka og koma nýjum svæðum í notkun. „Rannsóknir og leyfisferli geta tekið langan tíma áður en hægt er að hefja framkvæmdir við borun holu eða lagningu aðveitu- og dreifikerfis. Það var því ljóst að samhliða framkvæmdunum væri nauðsynlegt að vinna líka með notendahliðina og þess vegna fórum við af stað með þessa vitundarvakningu,“ segir Gunnur og bendir á að óháð þeim afleiðingum sem vandkvæðin við borholur á Hjalteyri orsaka hafi sannarlega verið þörf á breyttri umgengni notenda við heita vatnið, af umhverfissjónarmiðum, þar sem notkun hefur aukist mun hraðar en fjölgun íbúa gefur tilefni til.


Gunnur Ýr Stefánsdóttir á ársfundi Norðurorku í vor. Mynd: Norðurorka.

Gunnur bendir á að í gegnum árin hafi það verið þannig að fólk trúi ekki alveg þeim varnaðarorðum sem fyrirtækið hefur verið að koma á framfæri. En nú sé staðan þannig að talið var mjög brýnt að setja málið í forgang og vinna markvisst með notendahliðina. „Við höfum óbeint verið að gera það undanfarin ár, en ekki svona markvisst eins og núna. Hitaveitur um allt land eru margar að glíma við sömu áskoranir og Norðurorka.“

Ekki víst að þetta sleppi í næsta kuldakasti

Fyrr á árinu þurfti að loka sundlaugum á Suðurlandi og í kuldakastinu á dögunum lentu Sauðkrækingar í því sama, en Akureyringar hafa sloppið enn sem komið er. „Þetta slapp til í kuldakastinu sem var fyrr í þessum mánuði, segir Gunnur en bendir á að það sé ekki þar með sagt að þetta sleppi ef sambærilegt kuldakast kemur aftur síðar í vetur. „Það er bara af því að staðan í kerfunum er þannig hjá okkur. Á sumrin getum við minnkað eða jafnvel stöðvað dælingu frá einhverjum svæðum og þannig safnað vatni í jarðhitageyminn. Þetta á sérstaklega við um svæðin á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit og Laugalandi á Þelamörk. Þannig reynum við að vinna okkur í haginn til að standa sem best fyrir haustið og veturinn. Eftir áramótin er farið að minnka í jarðhitageymunum og þar af leiðandi eru meiri líkur á að við þurfum að grípa til aðgerða þá, ef við fáum langa frostakafla. Fyrsta mál væri alltaf að hafa samband við stórnotendur, svo sem sundlaugar og þau sem eru með upphitaða gervigrasvelli,“ segir Gunnur og bendir á að fjölgun og stækkun upphitaðra gervigrassvæða sé engin óskastaða fyrir Norðurorku út frá sjónarmiði bættrar og betri nýtingar á heita vatninu.


Myndband sem er hluti af vitundarvakningu Norðurorku er meðal annars sýnt á útisvæðinu við Sundlaug Akureyrar til að minna gesti á þau lífsgæði sem heita vatnið færir okkur. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Það kom einmitt fram í frétt á Akureyri.net í nóvember að á stjórnarfundi 14. nóvember hafði Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, greint stjórn frá áhyggjum starfsfólks af því að mögulega verði ekki hægt að anna eftirspurn eftir heitu vatni ef veturinn verður kaldur. Þar kom einnig fram það sem Gunnur nefndi, að ef skortur verður á heitu vatni gæti þurft að takmarka það til stórnotenda.

Vilja ná til allra

Á meðal þess sem unnið hefur verið með að undanförnu er myndband sem Norðurorka lét útbúa og finna má á vefsíðu fyrirtækisins ásamt hollráðum um ýmislegt varðandi nýtingu heita vatnsins. „Myndbandið er líka til sýningar á útisvæðinu í Sundlaug Akureyrar, svona rétt til að minna fólk á þau lífsgæði sem heita vatnið færir okkur. Hollráðin höfum við verið að birta á samfélagsmiðlum okkar og í nóvember vorum við með sýningarspjöld á Glerártorgi þar sem þeim var komið á framfæri á myndrænan hátt“ segir Gunnur

Myndbandið sem Norðurorka lét framleiða sem lið í vitundarvakningu um bætta nýtingu á heita vatninu.

Á dagskrá er að bjóða helstu þjónustuaðilum í pípulögnum á fund snemma á nýju ári. „Á fundinum viljum við gjarnan ræða ýmis sameiginleg atriði sem tengjast vinnu okkar og ekki síst þessa áskorun sem við okkur blasir í hitaveitumálunum. Þarna gefst þá líka tækifæri fyrir þá til að spyrja okkur nánar um stöðuna og koma með ábendingar til okkar. Þess vegna er samtal sem þetta auðvitað mjög mikilvægt,“ segir Gunnur og bætir við að auk þess standi til að ná samtali við stórnotendur á svæðinu þar sem þeir fái þá líka tækifæri til að spyrja og fara yfir stöðuna.

Þó viðbrögðin hafi almennt verið jákvæð er erfitt að mæla eða fullyrða um breytta hegðun eða notkun í framhaldi af vitundarvakningunni. „Það er erfitt að sjá það núna, en við vonumst til þess að það verði einfaldara með tilkomu orkumæla,“ segir Gunnur.


Hollráðin um heita vatnið voru kynnt með myndrænum hætti á Glerártorgi. Mynd: Norðurorka.

Orkumælarnir virka þannig að hægt verður að innheimta fyrir orkunotkun í stað rúmmetranotkunar eins og nú er gert. „Með orkumælum geta notendur sjálfir orðið meðvitaðari og stýrt sinni notkun betur auk þess sem orkumælarnir leggja grunn að mögulega breyttri verðskrá. Þá væri áfram greitt sanngjarnt verð fyrir heita vatnið sem fer til húshitunnar en mögulega hærra verð fyrir annað, svona þessa lúxusnotkun.“

Jákvæð viðbrögð og fólk almennt orðið meðvitaðra

Vitundavakningin hefur náð athygli fólks og viðbrögðin almennt verið jákvæð. Gunnur segir að fylgjendum á samfélagsmiðlum fyrirtækisins hafi fjölgað, sem er jákvætt og vonandi til marks um það að fólk sé orðið meðvitaðra um mikilvægi þessara grunninnviða sem fyrirtækið er að reka. „Það er erfitt að hugsa sér daglegt líf án rafmagns, fráveitu og rennandi vatns úr krönum, ekki síst á þessum tíma árs. Á bak við rekstur þessara kerfa er öflugur hópur starfsfólks Norðurorku sem leggur sig fram alla daga við að tryggja sem best órofinn rekstur veitukerfa, allan sólarhringinn allt árið um kring, líka yfir jólahátíðirnar,“ segir Gunnur Ýr Stefánsdóttir

Einföld hollráð geta hjálpað

Norðurorka hefur meðal annars tekið saman hollráð sem finna má á vef fyrirtækisins og notendur þurfa að hafa í huga til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að viðhalda þeim gæðum sem við búum við í heita vatninu í stað þess að nota það hugsunarlaust eins og það sé óþrjótandi.