Viltu taka þátt í að móta nýtt íbúðasvæði?
Íbúum Akureyrar býðst að taka þátt í að móta fyrirhugað íbúðasvæði vestan Borgarbrautar í Síðuhverfi. Hugmyndasöfnun hefst í dag og eru íbúar hvattir til að taka þátt í gegnum rafræna samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbær.
Vinna við deiliskipulag fyrir nýtt uppbyggingarsvæði, Kollugerðishaga, er að hefjast og samhliða verður gerð breyting á Aðalskipulagi. „Gert er ráð fyrir um 750 íbúðum í grænu, vistvænu og nútímalegu hverfi þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Hvatt til lýðræðislegrar þátttöku
„Markmiðið er að búa til gott hverfi í samráði við íbúa og þess vegna óskum við eftir hugmyndum í gegnum nýjan og rafrænan samráðsvettvang. Okkar Akureyrarbær er samráðsvettvangur sem er hluti af Betra Íslandi. Kerfinu er ætlað að hvetja til lýðræðislegrar þátttöku íbúa og er ætlunin að þarna geti Akureyringar sett fram hugmyndir og haft áhrif á málefni sem snúa að þjónustu, starfsemi og rekstri sveitarfélagsins. Hugmyndasöfnun vegna Kollugerðishaga undir yfirskriftinni Gerum gott hverfi er frumraun Akureyrarbæjar á þessu sviði og er liður í aukinni áherslu bæjarins á íbúasamráð,“ segir á vef bæjarins.
Byggingar, opin svæði, afþreying ...
„Hugmyndir geta meðal annars snúið að byggingum, samgöngum, opnum svæðum, þjónustu, afþreyingarmöguleikum eða einhverju allt öðru. Gagnlegt getur verið að móta hugmyndir eða tillögur út frá sjálfum sér og sínu nærumhverfi; hvað er gott og hvað mætti vera betra í þínu hverfi?
Einnig er hægt að styðja hugmyndir annarra, taka þátt í umræðum um hugmyndir, setja fram rök með og á móti og fleira. Vonast er til að þarna komi fram margar góðar og gagnlegar hugmyndir og umræður.“
Hægt er að senda inn hugmyndir til og með 31. maí og koma þær allar til skoðunar við gerð skipulagsins, skv. upplýsingum frá Akureyrarbæ.
Smelltu hér til að skoða lýsingu á verkefninu
Smelltu hér til að sjá allar helstu upplýsingar og hvernig þú getur haft áhrif
Smelltu hér til að senda inn hugmyndir í gegnum hinn nýja, rafræna samráðsvettvang
Horft yfir Kollugerðishaga, svæðið sem um ræðir, til norðvesturs. Húsin til hægri standa við Borgarsíðu en gatan neðst í horninu er Borgarbraut.