Fara í efni
Fréttir

Göngugatan: bílar bannaðir í allt sumar

Mynd: Haraldur Ingólfsson

Göngugatan í miðbæ Akureyrar verður lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja frá 1. maí til 30. september 2025. Það var samþykkt með samhljóða á fundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn. Um er að ræða hluta Hafnarstrætis, spottann á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs.

Ástand þessa hluta götunnar er mjög slæmt eins og Akureyri.net hefur fjallað um í fréttum:

Í fyrrasumar var þessi göngugatan lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja alla daga, allan sólarhringinn, frá 3. júní til loka ágúst. Aðgengi var þó tryggt fyrir P-merkta bíla, ökutæki viðbragðsaðila og aðföng rekstraraðila á afmörkuðum tíma dags og svo verður einnig nú, en þó var ákveðið að ökutækjum þyngri en þrjú tonn er óheimilt að aka um götuna.

Fellt að loka allt árið

Á fundi bæjarstjórnar var felld tillaga Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur, bæjarfulltrúa VG, þess efnis að umræddum hluta Hafnarstrætis yrði lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring (að undanskildum P-merktum bílum, ökutækjum viðbragðsaðila sem og að aðföng rekstraraðila komist að á afmörkuðum tíma dags).

Jana Salóme var sú eina sem greiddi tillögunni atkvæði. Fulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks sátu hjá en á móti voru allir fulltrúar meirihlutans, Sjálfstæðisflokks, L-lista og Miðflokks, svo og Jón Hjaltason, óháður.

Fellt að banna nagladekk

Einnig var fellt að bannað yrði að aka um göngugötuna á nagladekkjum. Aðeins Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Jón Hjaltason óháður greiddu atkvæði með því en á móti voru tveir bæjarfulltrúar L-lista, báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarmennirnir tveir og fulltrúi Miðflokks. Fulltrúi VG og Samfylkingar sátu hjá.
 
Lagðar voru fram nokkrar bókanir í umræðum um göngugötuna.
 
  • Fulltrúar meirihlutans, L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks létu bóka:

Við teljum í ljósi jákvæðrar reynslu á lokun göngugötunnar yfir sumarmánuði á síðasta ári, næsta skref vera að lengja það tímabil til samræmis við komur skemmtiferðarskipa til bæjarins. Frekari lokun þarfnist meiri undirbúnings og sé ekki tímabær.

  • Jana Salóme fulltrú VG lét bóka eftirfarandi:

Í ljósi ástands þess hluta Hafnarstrætis sem í daglegu tali er vísað til sem göngugötu tel ég ekki forsvaranlegt að halda áfram að hleypa umferð vélknúinna ökutækja í gegn. Þá tel ég einnig að það sé gott fyrir blómlega bæinn okkar að loka fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring. Ég fagna þó lengingu á tímabili lokunar og tel það farsælt skref þó ég hefði viljað ganga lengra.

  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknarflokks létu bóka:

Við erum opin fyrir því að skoða lokun göngugötunnar árið um kring en aðeins að undangengnu samráði við hagaðila í miðbænum, þar sem mismunandi sjónarmiðum er stefnt saman og þau vegin. Við teljum mikilvægt að taka ákvörðun um framtíðarskipulag göngugötunnar og svæðisins í kring, svo umhverfis- og mannvirkjasvið geti hafið hönnun og ráðist í mikilvægar endurbætur. Vegna ástandsins á götunni þá er nauðsynlegt að setja á hana þungatakmarkanir, og má benda á að um allt land tíðkast að setja slíkar takmarkanir á vegi þegar þörf krefur. Við teljum það hins vegar ekki raunhæft að banna notkun nagladekkja í þessari einu götu, hvorki hvað varðar eftirfylgni né þegar kemur að því að miðla slíku banni til bæjarbúa og gesta.

  • Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, lét bóka:

Tillaga skipulagsráðs að verklagsreglum fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja er enn eitt skref í jákvæðri þróun. Vonandi verður einnig vilji til þess að loka litlum hluta Skipagötu á sama tímabili, enda gæti það aukið gæði útiveru og möguleika til viðburðarhalds að sumarlagi.

Hins vegar er yfirborð göngugötunnar orðið það slæmt að ekki er lengur hægt að viðhalda umferð á henni án umfangsmikilla viðgerða. Verði slíkum viðgerðum ekki lokið fyrir haustið er erfitt að sjá hvernig hleypa á umferð vélknúinna ökutækja um götuna á ný án þess að hætt sé við því að t.a.m. snjóbræðslukerfi eyðileggist enn frekar.

Löngu tímabært er að fara í allsherjar endurbætur á göngugötunni og Ráðhústorgi, á grundvelli heildarsýnar, fremur en að reyna í sífellu einhvers konar bútasaum með minni háttar lagfæringum. Tryggja þarf nauðsynlegt fjármagn til þess að svo geti orðið.