Þórhallur: Hótanir bera ekki árangur
Meirihluti skipulagsráðs Akureyrar hafnaði í gær ósk hóps eldri borgara um að útlit fyrirhugaðrar blokkar í hinu nýja Holtahverfi verði breytt. Þórhallur Jónsson, formaður ráðsins, segir ekki hafa verið hægt að verða við ósk um breytingar; húsið sé við aðkomu inn í hverfið og við gerð skipulagsins hafi verið komið til móts við umsagnir íbúa í nágrenni byggingarinnar. Hann segist ekki beygja sig undir hótanir fólks úti í bæ.
- Skv. skipulagi verður blokkin þrjár hæðir og sú efsta inndregin.
- Óskað var eftir að allar hæðirnir yrðu eins.
- Þórhallur Jónsson segir að með því að hafa þriðju hæðina inndregna hafi verið komið til móts við vilja íbúa í nágrenninu; þannig virki húsið ekki eins mikill „veggur“ við aðkomu inn í hverfið.
- Einnig óskaði hópurinn eftir því að húsið lengdist í átt að götunni.
Ásdís Árnadóttir lýsti í gær yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun skipulagsráðs á Facebook síðu hóps áhugafólks um byggingu íbúðablokkar fyrir eldri borgara á Akureyri. Hún er forsprakki hópsins.
Þórhallur skrifaði í dag færslu á Facebook síðuna og gaf Akureyri.net leyfi til þess að birta þau skrif. Tveir fulltrúar í skipulagsráði vildu verða við ósk eldri borgaranna á fundi ráðsins eins og þá var greint frá en þrír höfnuðu því; Þórhallur Jónsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Arnfríður Kjartansdóttir.
Dónaskapur og hótanir
„Góðan dag, til útskýringar á afgreiðslu málsins er rétt að það komi fram að inndregin 3ja hæð og fjarlægð byggingarreitar frá nærliggjandi byggð er skipulögð svona til að koma á móts við umsagnir íbúa við umrætt skipulag í nágrenni byggingarinnar. Því fannst mér ekki vera hægt að verða við þessari ósk og ganga þvert á vilja allra þeirra íbúa í hverfinu sem búið var að taka tillit til í skipulaginu,“ skrifar Þórhallur.
Hann vísar til færslu í hópnum í gær, eftir að niðurstaðan ráðsins lá fyrir og segir: „Þetta er ekki gert vegna þess að mér sé illa við og sé á móti eldriborgurum eins og haldið er fram í þessari dónalegu færslu. Í nýju skipulagi við Móahverfi gerum við t.d. ráð fyrir íbúðakjörnum með mögulegum þjónustukjarna fyrir eldriborgara. Ásdís Árnadóttir hringdi í mig daginn fyrir skipulagsráðsfundinn og var mjög dónaleg og hafði í frammi hótanir sem hún hefur nú fylgt eftir. Ef fólk vill hópast um slík vinnubrögð þá er því velkomið að gera það en ég get lofað að það ber ekki árangur gagnvart mér. Í þessari bæjarstjórn hef ég verið talsmaður lýðheilsu úrbóta fyrir eldra fólk og bættrar þjónustu en beygi mig ekki undir hótanir frá einstaklingum úti í bæ. Að lokum er það staðföst trú mín að hægt sé að byggja þarna hagkvæmt húsnæði án þess að fara í þessar skipulagsbreytingar.“
Blokkin verður þar sem rauði hringurinn er dreginn; liggur meðfram Krossanesbrautinni, við aðkomuna í hverfið.