Fara í efni
Fréttir

Þetta vissir þú ekki um flokkun!

Búðarpokinn góði er ekki eins umhverfisvænn og margur hélt. Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

Akureyri.net heimsótti flokkunarstöð Terra í Réttarhvammi á dögunum þar sem blaðamaður fékk að skoða sig um og spjallaði við Helga Pálsson, rekstrarstjóra Terra á Norðausturlandi um flokkun og fleira. Viðtalvið hann um framtíðina í flokkunarmálum bæjarins má lesa hér.

Hér að neðan má svo nálgast flokkunarráð og ábendingar sem komu upp úr krafsinu í heimsókninni. Gleðilega flokkun!

  • „Lífræni“ pokinn í stórmarkaðnum getur ekki farið í jarðvinnslu

Hver kannast ekki við að fara í búðarferð, gleyma fjölnota pokanum og kaupa umhverfisvænan poka? Þessir mjúku, sem leystu plastpokana af hólmi fyrir nokkrum árum? Á þessum pokum stendur að þeir séu lífrænir, en samkvæmt Helga er engin jarðvinnsla sem getur brotið þá niður. Þeir eru of sterkir. Til dæmis getur jarðvinnslan Molta í Eyjafirði ekki breytt þessum pokum í jarðveg ásamt hinu lífræna efninu. Þar af leiðandi, er best að nota þessa poka undir almennt sorp, þeir eru þó fljótari að brotna niður í urðun heldur en forverar þeirra úr plastinu.

Poppokinn klassíski. Hvert má hann fara?

  • Popppokinn fitugi

Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvernig skuli flokka pokana utan af örbylgjupoppi, en þeir eru með einhverri hitaþolinni filmu innan í, pappa utan um og alltaf löðrandi í fitu. Helgi segir að það sé í góðu lagi að skella þeim með pappanum, fitan sé bara orkuríkt og lífrænt efni. Hins vegar bendir hann á að popppokar eru í rauninni endurnýtanlegir ef þeir rifna ekki. „Þegar ég var á sjó, notuðum við þessa poka aftur og aftur. Skelltum í þá maís og smjöri eða olíu og lokuðum pokanum með tannstöngli. Svínvirkar!“ segir Helgi og hlær. 

  • Mjólkurfernurnar

Fyrir ekki svo löngu varð uppi hávær umræða um að mjólkurfernur landsmanna færu ekki í endurvinnslu, eins og neytendur trúðu, heldur í brennsluofna á Norðurlöndunum. Helgi hefur ekki tekið eftir því að metnaður bæjarbúa til flokkunar hafi rýrnað eftir þetta. „Þær fernur sem koma í grenndargámana okkar, fara í endurvinnslu sem fernur, með engu öðru. Þær sem fara um aðrar leiðir, í bland við annan pappa eða pappír, enda mjög líklega í brennslu,“ segir Helgi. Hann er mjög ánægður með þá flokkara sem skola og brjóta saman fernurnar þannig að þær taki sem minnst pláss.

Hér hefur vandvirkur, fyrirmyndar flokkari verið á ferð. Rúmmál fernanna í algjöru lágmarki.

  • Samsettar umbúðir

Oft eru svokallaðar samsettar umbúðir utan um matvöru, til dæmis pasta, kaffi og fleira. Sem dæmi gæti pappír verið ysta lagið, en innan í einhver tegund af plasti. Helgi segir að svona umbúðir sé best að setja í plastgáminn. Það lendir þó að öllum líkindum í brennslu á endanum. Því hreinna sem plastið er, því líklegra er að það verði endurnýtt.

  •  Í upphafi skal endinn skoða

Þau sem hafa spurningar um flokkunarmál eru hvött til þess að senda fyrirspurn á vefsíðu Terra. Gott er að muna að ruslið okkar gufar ekki upp þegar það er komið í endurvinnslu eða ruslatunnu.

Endum þessa grein á góðum punkti frá Helga: „Byrjum að hugsa um framhaldslíf umbúða í búðinni.“