Gríðarlegt svifryk um miðjan dag
Mjög mikil loftmengun var á Akureyri í dag vegna svifryks. Klukkan fimm síðdegis sýndi loftgæðamælirinn við Strandgötu 411,0 míkrógrömm svifryksagna í hverjum rúmmetra af andrúmslofti. Andrúmsloft telst gott þegar sú tala er 50,0 eða minna.
Staðan var viðunandi í morgun en versnaði mjög laust fyrir hádegi. Tilkynning birtist á vef bæjarins í hádeginu þar sem bent var á að talsverð svifryksmegnun væri líkleg og sú varð aldeilis raunin. Á myndinni að neðan má sjá þróunina frá klukkan 11.00 í morgun til 19.00 í kvöld.
Mikil bílaumferð er jafnan meginorsök svifryksmengunar í bænum. Nú er auð jörð og margir bílar búnir nagladekkjum.
Heilsuverndarmörk svifryks eru miðuð við meðaltal hvers sólarhrings þar sem mörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Meðaltalið á Akureyri var rúmlega 95,0 frá því klukkan 19.00 í gærkvöldi til 19.00 í kvöld skv. tölum loftgæðaupplýsingakerfi á vef Umhverfisstofnunar – vel yfir heilsuverndarmörkum.
Hægt er að fylgjast með mælingum á styrk svifryks og annarra mengunarefna á vefnum loftgæði.is.
Hér má sjá hvað litakerfi Umhverfisstofnunar þýðir: