SS heimilað að vinna að breytingum á skipulagi við Tónatröð
Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í dag að heimila SS Byggi að vinna að gerð breytinga á deiliskipulagi við Tónatröð til samræmis við hugmyndir sem fyrirtækið hefur lagt fram að uppbyggingu, í samráði við skipulagssvið og skipulagsráð. SS Byggir sótti um fimm lóðir við götuna og hefur kynnt hugmyndir um fimm há fjölbýlishús.
Bæjarstjórn klofnaði málinu. Fimm greiddu atkvæði gegn tillögu skipulagsráðs en sex samþykktu hana.
Ákvörðun bæjarstjórnar felur í sér, eins og það er orðað í fundargerð skipulagsráðs frá 28. apríl, sem afgreidd var í bæjarstjórn í dag, að umsækjanda yrði veitt vilyrði fyrir lóðum á þessu svæði „en endanleg úthlutun færi þó ekki fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, náist samkomulag um breytingu á skipulagi svæðisins að loknu skipulagsferli.“
Í umræðum í dag lögðu fimm bæjarfulltrúar, sem voru á móti því að heimila SS Byggi að vinna áfram að breytingum á deiliskipulagi, fram eftirfarandi bókun:
„Í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis er eðlilegt að bæjarstjórn tryggi að allir áhugasamir fái jöfn tækifæri til þess að sækjast eftir lóðum við Tónatröð á breyttum forsendum. Við leggjum til að svæðið verði skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst eftir samstarfsaðila vegna vinnu við skipulag reitsins, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð.“
Bókunina lögðu fram Ingibjörg Isaksen, Framsóknarflokki, Hilda Jana Gísladóttir og Heimir Haraldsson, Samfylkingu, Sóley Björk Stefánsdóttir, VG og Halla Björk Reynisdóttir, L-lista, og greiddu atkvæði gegn tillögu skipulagsráðs.
Tillöguna samþykktu allir þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Gunnar Gíslason, Þórhallur Jónsson (formaður skipulagsráðs) og Eva Hrund Einarsdóttir, Andri Teitsson, L-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, og Hlynur Jóhannsson, Miðflokki.