Fara í efni
Fréttir

Sótt um lóð fyrir líforkuver á Dysnesi

Víkingasverð á Dysnesi. Við fornleifauppgröft, sem fram fór árið 2017 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við stórskipahöfn á Dysnesi, fannst m.a. víkingasverð, sem þarna liggur í moldinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Líforkugarðar ehf. hafa formlega óskað eftir því við Hafnasamlag Norðurlands að fá úthlutað lóð við Dysnes.

Á fundi stjórnar Hafnasamlags Norðurlands fyrr í mánuðinum var farið yfir stöðu mála varðandi vinnu Mannvits vegna umhverfismats hafnarframkvæmda við Dysnes og kynnti fulltrúi Mannvits drög að lóðaskilmálum fyrir lóðir í eigu Hafnasamlagsins. Á sama fundi var lagt fram erindi þar sem Líforkugarðar ehf. sækja formlega um að fá útlhutað lóð númer 411 við Dysnes. Lóðin er iðnaðarlóð, 6.681 fermetri að stærð. Fyrirhugað er að þar rísi móttaka og vinnsla dýraleifa, sem er fyrsti fasi líforkugarða.

_ _ _

Nafnið Dysnes hringir án efa bjöllum hjá einhverjum. Á árum áður var mikið rætt um að reisa þar álver og síðar stórskipahöfn. Vegna hins síðarnefnda fór fram fornleifauppgröftur árið 2017 og í skýrslu Minjastofnunar um hann segir:

    • Dysnes er einn af allra merkustu kumlateigum sem þekktir eru á Íslandi
    • Þessi fornleifafundur hefur gildi á alþjóðavísu og mun varpa nýju ljósi á heiðinn greftrunarsið hér á landi og í heimi norrænna manna á víkingaöld.

Meiri fróðleik um fornleifafundinn má sjá neðst í greininni_ _ _

Dysnes - skjáskot úr kynningarmyndbandi Hafnasamlags Norðurlands.

Stjórn HN hafði áður í tvígang fengið kynningu á verkefninu og setti fram fyrirvara sem nýstofnað félag hefur tekið til greina að því er fram kemur í fundargerð HN. Stjórnin telur rétt að áfram verði unnið að mögulegri uppbyggingu á svæðinu og fól hafnarstjóra, formanni og varaformanni að funda með fulltrúum Líforkugarða varðandi viljayfirlýsingu um lóðina.

Hvað er líforkuver?

Fyrir tæpu ári var frumhagkvæmnimat líforkuvers kynnt fyrir fulltrúum sveitarfélaga og fleiri hagaðilum. Vistorka sá um verkefnisstjórnun ásamt Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE), í samvinnu við ráðgjafa frá Mannviti, Environice, KPMG og Gefn.

Líforkuver snýst að safna saman lífrænum úrgangi sem fellur til á Norðausturlandi á einn stað og vinna úr honum verðmætar afurðir. Á vef Vistorku er líforkuver útskýrt í stuttu máli: Líforkuver er lausn sem felur í sér að safna saman öllum lífrænum úrgangi og búfjáráburði sem fellur til á svæðinu og vinna úr því verðmæti, þ.e. lífdísil, metan og moltu.“ Vistorka kynnti þessa framtíðarhugmynd um líforkuver meðal annars með stuttu myndbandi - sjá hér.

Skýringarmynd Vistorku sem sýnir í stórum dráttum hvað felst í líforkuveri.

Í skýrslunni segir meðal annars: Líforkuveri er ætlað að vera heildarlausn sem uppfyllir þær kröfur og væntingar sem hið opinbera, atvinnulífið og neytendur gera til meðhöndlunar á lífrænum úrgangi í nútíð og framtíð.

Verkefnið í raun nú þegar hafið

Í frétt á vef SSNE í janúar á þessu ári þar sem sagt er frá frumhagkvæmnimatinu er bent á að verkefnið sé í raun nú þegar hafið á svæðinu þar sem Orkey framleiði lífdísil úr matarolíu, Molta ehf. framleiði moltu úr lífrænum úrgangi og Norðurorka hf. framleiði metangas úr hauggasi á aflögðum sorphaugum á Glerárdal.

Hugmyndin um líforkuver er útvíkkun á því sem við erum nú þegar að gera vel svo í verkefninu liggur tækifæri til að halda áfram að vera í fararbroddi og til fyrirmyndar í meðhöndlun lífræns úrgangs á landinu,segir meðal annars í frétt SSNE.

_ _ _

MERKUR FORNLEIFAFUNDUR

Vegna deiliskipulagsvinnu og fyrirhugaðra framkvæmda á Dysnesi í Hörgársveit fór þar fram fornleifauppgröftur árið 2017. Rannsókn Fornleifastofnunar Íslands fólst einkum í að skera úr um hvort ummerki á tilteknum stöðum væru fornar mannvirkjaleifar. 

Í skýrslu stofnunarinnar er tekið fram að litlar líkur hafi virst á að þar fyndist heiðin gröf eða grafreitur, en síðan segir meðal annars:

  • En viti menn, þar kom í ljós ekki einasta stök gröf, heldur leifar af stórum kumlateig, með sex gröfum og haugum. Þar af reyndust a.m.k. tvær þeirra vera að auki bátkuml.
  • Annar báturinn var óvenju vel varðveittur og fundust þar umtalsverðar viðarleifar og bátsaumur, ásamt leifum af mannsbeinagrind og hundi og ýmsum forngripum, s.s. skjaldarbólu.
  • Báturinn hefur verið um 6,5m á lengd og er fágætur fundur hér á landi.
  • Norðan hans fundust leifar af öðrum báti í kumli, sem hafði skemmst talsvert vegna ágangs sjávar á ystu brún nessins. Þar fannst bátsaumur, beinaleifar úr manni og dýrum og vopn: sverð, tvö spjót og meint skjaldarbóla.
  • Vestan syðri bátsins var stór haugur, sem reistur hafði verið úr torfi og grjóti yfir gröf sem í voru leifar manns og hunds. Í þeirri gröf fundust skartgripir: kringlótt næla með skrauti frá víkingaöld og steinasörvi.

Bátkuml sem fannst á Dysnesi 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Á svæðinu kom einnig í ljós blásið og rótað kuml. Þrátt fyrir að það væri talsvert skemmt þá fundust á botni grafarinnar beinaleifar manns og dýrabein, annað sverð, stórt brýni og rónaglar sem gætu verið leifar af skildi.
  • Við hliðina á gröfinni fannst einnig kringlótt næla úr bronsi með skrauti.
  • Vestan við nyrðri bátinn, fannst stór haugur, flókinn að gerð og hlaðinn úr torfi og steini. Í honum voru leifar manns og hests og þar voru beislishringjur og silfurbaugur, en slíkir fingurbaugar eru fágætir á öllum Norðurlöndum á Víkingaöld.
  • Norðan og vestan við þennan haug var enn einn stóri haugurinn úr torfi og grjóti. Í honum voru bein úr manni og dýri ásamt mjög vel varðveittum spjótsoddi.
  • Um allan kumlateiginn mátti sjá að rjálað hafði verið við haugana og grafirnar fyrir mörgum öldum síðan. Mögulega eru það ummerki um grafarrán, eða jafnvel hefur raskið verið hluti af hinum heiðna greftrunarsið.