Fara í efni
Fréttir

Fyrstu Svansvottuðu húsin í Eyjafirði

Rauðbrúnu húsin til vinstri eru Reynihlíð 9-11 og hægra megin er Reynihlíð 13, sem ÁK smíði er einnig að byggja. Mynd: Þorgeir Baldursson

Byggingaverktakinn ÁK smíði fékk í gær afhenta viðurkenningu frá Umhverfis- og orkustofnun, í tilefni af því að fyrirtækið var að byggja fyrstu Svansvottuðu húsin í Eyjafirði. Húsin sem um ræðir eru fjölbýli við Reynihlíð 9-11 í Hörgársveit. Viðar Kristjánsson er verkefnastjóri Svansvottunarferlis hjá ÁK smíði.

„Það er í mörg horn að líta í þessu ferli, að fá þessa viðurkenningu, við þurftum alveg að hafa fyrir þessu,“ segir Viðar við blaðamann Akureyri.net. „Við erum stoltir og þetta er ákveðinn áfangi, en við ætlum að byggja áfram á þessari reynslu og hafa þessi vinnubrögð að leiðarljósi í framtíðinni í nýbyggingum. Það er erfiðast fyrst, að tileinka sér eitthvað nýtt, en verður svo auðveldara.“ 

Svansvottun gæðastimpill fyrir íbúa

Viðar segir að hann sé sannfærður um að fólki muni líða betur í Svansvottuðu húsi. „Þetta er eitthvað sem okkur finnst skipta máli, en það eru til dæmis mjög strangar kröfur varðandi eiturefni.“ Svansvottun er ákveðinn gæðastimpill, sérstaklega fyrir kaupendur þar sem kröfur eru gerðar á innivist, rakavarnir ofl. Það skiptir auk þess miklu máli fyrir byggingariðnaðinn að takmarka umhverfisáhrif þar sem losun frá mannvirkjageiranum er um 30-40% á heimsvísu ásamt því að mikið er notað af heilsuspillandi efnum í byggingavöru.

Viðar Kristjánsson verkefnastjóri Svansvottunarferlis hjá ÁK smíði, Finnur Jóhannesson eigandi ÁK smíði, Sigurður Friðleifsson frá Umhverfis- og orkustofnun, Ármann Ketilsson eigandi ÁK smíði og Lýður Hákonarson húsasmíðameistari. Mynd: Þorgeir Baldursson

Sigurður Ingi Friðleifsson afhenti eigendum ÁK smíði viðurkenninguna, en hann er sviðsstjóri Umhverfis- og orkustofnunar. „Þegar nýbyggingar eru vottaðar er tekið mið af hráefninu, framkvæmdinni, notkuninni og úrgangsferlinu,“ segir Sigurður Ingi.
 
„Byggingar sem eru Svansvottaðar hafa farið í gegum dagsbirtuhönnun, orkunotkun er lægri en í hefðbundnum húsum, krafa er gerð um að setja upp rakavarnaráætlun í framkvæmdarferlinu, öll skaðleg efni í byggingavörum- og efnum hafa verið takmörkuð verulega og margt fleira.“

Umhverfisvitund felst ekki bara í Svansvottun

Viðar segir að stefna fyrirtækisins hafi alltaf verið að hafa nýtni að leiðarljósi. „Við erum til dæmis að byggja hús á planinu hjá okkur sem á að verða starfsmannahús fyrir hótelið á Fosshóli sem ÁK smíði á,“ segir hann. „Þetta hús erum við að byggja úr 70-80% endurnýjanlegu efni. Við notum t.d. timbur sem féll til í öðru verki að stórum hluta. Við reynum að hirða öll verðmæti og það er náttúrulega forkastanlegt að vera að henda.“
 
„Við erum nokkuð stoltir af þessari viðurkenningu og vonum að fleiri hoppi á vagninn,“ segir Viðar að lokum. 
 

Mynd: Þorgeir Baldursson